Eigum að vita hvert við viljum fara og þora að fara þangað.

Ólafur Örn Ingólfsson

Ólafur Örn Ingólfsson skrifar

 Í sögu heimspekingsins Lewis Caroll um Lísu í Undralandi sagði kötturinn aðspurður við Lísu, að ef hún vissi ekki hvert hún vildi fara, skipti engu hvaða leið hún veldi. Þessi tilvitnun í skemmtilega sögu kemur upp í hugann þegar fjallað er um einn af smánarblettum íslensks heilbrigðiskerfis, vöntun á hjúkrunarheimilum og öðrum meðferðarúrræðum fyrir gamalt veikburða fólk. Fólk sem orðið er svo gamalt og lasburða að það getur illa séð um sig sjálft. Makar sem fá ekki að búa saman. Gamalt fólk sem sent er á hjúkrunarheimili í öðrum landshluta. Fjöldi eldra fólks sem býr enn heima og getur varla séð um sig sjálft eða er upp á fjölskyldu sína kominn. Á LHS liggja í dag að jafnaði yfir 100 manns og bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili. Um fimmtungur þeirra deyr á meðan þeir bíða. Nú er ekki verið að gera lítið úr þeirri þjónustu sem fólk fær á LHS. Öðru nær. Þar leggur starfsfólk mikið á sig að mæta þörfum þessa fólks jafnt og annarra sem á spítalanum dvelja.  Það er hinsvegar staðreynd að langlegusjúklingar sem liggja inni á sjúkrahúsum eru ekki að læknast í hefðbundnum skilningi sjúkrahúsvistar heldur sér ellikerling og ýmsir sjúkdómar henni tengdir um að hjúkra þarf þessu fólki til æviloka.  Mér er til efs að nokkur Íslendingur sé sáttur við þessa stöðu. Öll eigum við foreldra, afa og ömmur og aðra nána ættingja sem eldast og vonandi á það fyrir flestum okkar að liggja að verða gömul.

Þessi vandi er hinsvegar ekki nýr. Við lestur greina frá 2002 þ.e. fyrir 15 árum er umræðan sú sama. Um og yfir 100 manns voru fastir inni á LHS þar sem ekki var í önnur hús að venda. Forstjóri LHS á þeim tíma brýndi stjórnmálamenn í því að við þyrftum að ákveða hvernig haga ætti þessum málum.

Legurými á LHS er eðli málsins samkvæmt 3 til 5 sinnum dýrara en meðferðarúrræði  eins og hjúkrunarheimili. Og árin hafa liðið. Eitt fjármálahrun setti strik í reikninginn. Íslenskt samfélag hefur hinsvegar með undraverðum hætti rétt úr kútnum og ætti sem eitt af efnaðri samfélögum heimsins að vera vel í stakk búið til að búa eldri borgurum áhyggjulaust ævikvöld. Að tryggja sem flestum sem þess þurfa pláss á hjúkrunarheimili og þeim sem geta búið heima, þjónustu og öryggi.

Við eigum sem samfélag að geta ákveðið hvernig við viljum haga þessum málum og þar með vita hvert við viljum fara. Liggi það fyrir, þurfum við að þora að fara þangað. Ef við hinsvegar eins og Lísa í Undralandi, vitum ekki hvert við viljum fara, og það virðumst við ekki hafa vitað ansi lengi, er hætta á að núverandi ástand verði ekki bætt. Sem fyrr hafa menn borið fyrir sig fjárskort. Það þarf ekki bara að byggja hjúkrunarheimili, það þarf að reka þau líka, er sagt.

Hvert legurými sem losnar á LSH og færist á hjúkrunarheimili felur í sér þjóðhagslegan sparnað sem getur numið tugum þúsunda á mann á dag. Sparist 80 þúsund á mann á dag með þessum hætti erum við að tala um 3 milljarða á ári. Á þessum 15 árum sem hér er rætt um er verið að tala um 45 milljarða. Hér er eingöngu verið að fjalla um þau 100 legurými á LHS sem myndu losna með fleiri hjúkrunarheimilum. Þessu til viðbótar má reikna kostnað fjölskyldna eins og vinnutap þegar einhver úr fjölskyldunni þarf að vera heima vegna aldraðs foreldris, ömmu eða afa. Það liggur fyrir að með átaki í þessum efnum má reikna stórar upphæðir í þjóðhagslegan sparnað auk þess að tryggja eldri borgurum þessa lands, sem við verðum flest á endanum, að síðustu æviárin verði áhyggjulaus og gefandi.

Líta má til reynslu annarra þjóða sem hafa þurft að fara í opinberar innviðafjárfestingar og leyst málin með öðrum hætti. Með svokallaðri PPP aðferðafræði  ( public, private, partnership) hafa verið byggð m.a. geðsjúkrahús, sjúkrahús og skólar í Danmörku þar sem opinberir aðilar hafa samið við verktaka, fasteignafélög og lífeyrissjóði um að byggja, reka fasteignina og fjármagna opinber mannvirki. Framkvæmdir sem þessar eru auðvitað unnar á forsendum verkkaupa þ.e. hins opinbera aðila og starfsemi að framkvæmdum loknum er hefðbundinn opinber rekstur.

Nú liggur fyrir að ný ríkisstjórn sem samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum virðist hafa töluverðan meðbyr meðal landsmanna þarf að setja saman fjármálaáætlun fyrir næstu 4 ár eða út kjörtímabilið. Vonandi felur sú áætlun í sér markmiðssetningu í þessum málaflokki sem sæmir íslenskri þjóð. Að umtalsverðir sigrar hafi unnist í þessum málaflokki á kjörtímabilinu. Þá vitum við hvert við viljum fara og eigum að þora að fara þangað. Óbreytt ástand er ekki valkostur og það vita bæði ný ríkisstjórn og þjóðin.

Ritstjórn desember 12, 2017 10:53