Ekki eitraðar á síðasta söludegi

Sumarbók vikunnar að þessu sinni er ótrúlega hagnýt bók, ekki síst fyrir þá sem eru farnir að reka heimili og hafa ekki gengið á húsmæðraskóla!! Allt á hreinu, einföld og umhverfisvæn húsráð eftir Margréti D. Sigfúsdóttur. „Menn vilja gefa hana börnum og barnabörnum“, segir Áróra Gústafsdóttir hjá Forlaginu.

Góð húsráð falla aldrei úr gildi

Óhreinindi og rusl hverfa ekki af sjálfu sér, segir höfundurinn í formála bókarinnar og heldur áfram:

Þessi bók er hugsuð til að hjálpa fólki að ná vel utanum skipulag og ræstingu á heimilum, þvott og frágang á fatnaði og öðru líni ásamt nýjum og gömlum húsráðum. Mæður okkar og ömmur kunnu ýmis húsráð sem notuð voru í áratugi og litið var á sem almenna þekkingu. Hætta er á að þessi góðu ráð gleymist með tímanum, en góð húsráð falla aldrei úr gildi.

Verður ekki eitrað á síðasta söludegi

Það eru ótrúlega mörg góð ráð í bókinni um þrif, geymslu matvæla, þvott og fleira. Hér eru nokkur dæmi.

  • Mjólkurvörur eru ekki ónýtar eða eitraðar á síðasta söludegi. Íslenska þjóðin væri útdauð ef svo væri.
  • Klósettburstinn er ekki eilífur. Það þarf að endurnýja hann alla vega tvisvar á ári.
  • Gott er að geta sofið við opinn glugga
  • Já, og grillið má ekki vera svo óhreint að það logi varla í því.

Margvísleg önnur ráð eru í bókinni, til dæmis um það hvernig á að þvo sængur og dúnúlpur. Hvernig á að strauja skyrtu, eða ná blekbletti úr flík og bent er á nýstárlega leið til að drepa köngulær með því að „spreyja“ á þær hárlakki. Það er ekki víst að börnin okkar og barnabörnin hafi þetta allt á hreinu!

 

Ritstjórn júlí 16, 2015 10:30