Ekki flókið að læra á heyrnartæki

Sumir sem nota heyrnartæki kvarta yfir að þau virki ekki nógu vel, eða þá að þau séu ágæt þegar menn sitja á tveggja manna tali, en erfitt sé að nota þau þar sem er kliður. Ellisif Katrín Björnsdóttir heyrnarfræðingur hjá Heyrn í Kópavogi segir hins vegar að þetta sé byggt á þekkingarleysi, því það hafi orðið stórstígar framfarir í gerð heyrnartækja síðustu fimm árin. En það sé lykilatriði að kunna á þau og þjálfa sig í að nota þau. Hún segir að það sé ekkert flókið að læra á heyrnartæki.

Ellisif Katrín Björnsdóttir

Ellisif Katrín Björnsdóttir

Heyrnarfræðingur kennir á tækin

Ellisif segir í fyrsta lagi mikilvægt fyrir þá sem eru farnir að tapa heyrn, að fá rétta heyrnargreiningu, en á henni byggist val og stilling heyrnartækjanna. Mikilvægt sé að velja heyrnartæki eftir greiningunni. Hún segir jafnframt að fólk eigi fyrst og fremst að fá leiðbeiningar og kennslu á tækin, hjá fagfólki. Hún segir að sá sem þarf heyrnartæki, þurfi að koma oftar en einu sinni til að prófa þau og velja. Síðan tekur við endurhæfing. „Við sleppum ekki takinu af fólki fyrr en það er búið að læra á þau“ segir hún.

Heyrnartækin þarf að uppfæra

Það er hins vegar ekki nóg að læra á tækin, það þarf að uppfæra þau reglulega og stilla þau að minnsta kosti tvisvar á ári. Að kaupa heyrnartæki er nefnilega ekki eins og að kaupa hvern annan hlut í búð. Það er einnig er nauðsynlegt að mæta annað hvert ár í heyrnargreiningu og stilla svo tækin, þannig að þau séu í samræmi við hana. „Fólk gleymir að sinna þessu“ segir Ellisif og bætir við að menn verði að láta vita ef tækin virka ekki eins og til er ætlast. Flest tæki í dag eru algjörlega sjálfvirk og það eina sem notandinn þarf að gera er að halda tækjunum hreinum og skipta um rafhlöður.

Lækna ekki heyrnina

Heyrnartæki lækna ekki heyrn sem er farin að bila, ekki frekar en gleraugu lækna sjón. En þau gera fólki kleift að heyra betur og auka þannig lífsgæðin. Það er hvimleitt að þurfa sífellt að hvá, eða biðja fólk um að endurtaka það sem það segir. Það gerir fólk líka öryggislaust að heyra ekki það sem fram fer. Ellisif segir að með nýrri tækni séu heyrnartækin orðin auðveldari í meðförum og til dæmis sé auðveldara en áður að greina tal í klið. Samanburður við heyrnartæki frá síðustu öld sé eins og að bera saman túbusjónvarp og nýjustu sjónvarpstækin.

Heyrnartæki tengd við snjalltæki

Fyrir þá sem hafa tileinkað sér nýjustu tækni, er gott að vita að hægt er að tengja sum heyrnartæki þráðlaust við síma, spjaldtölvur, sjónvörp og hljóðnema. Þetta gerir fólki sem hefur átt erfitt með að tala í síma, kleift að gera það. Á þessari slóð á Facebook má sjá dæmi um þetta. Menn fá svokallað app, sem er smáforrit, ef þeir vilja nota þessa tækni og geta tengt heyrnartækin við síma eða iPad. Þannig geta þeir stjórnað styrk tækjana með símanum eða iPadinum.

 

Ritstjórn janúar 21, 2015 10:44