Ekki gleyma að endurnýja ökuskírteinið

Þegar fólk eldist þarf að endurnýja ökuskírteinið oftar. Felstir sem nú eru komnir vel yfir miðjan aldur eru með ökuskírteini sem gildir þar til þeir verða sjötugir. Þannig voru reglurnar, en árið 2013 var þeim breytt til samræmis við evrópskar reglur og ökuskírteini sem hafa verið gefin út eftir það gilda einungis í 15 ár í senn.

 Gildistíminn styttist með aldrinum

Reglurnar eru þannig að fólk þarf að endurnýja ökuskírteinið þegar það verður sjötugt og þá gildir skírteinið í 4 ár. Eftir það þarf að endurnýja skírteinið annað hvert ár, en eftir áttrætt þurfa menn að endurnýja ökuskírteinið árlega. Menn þurfa að fara í læknisskoðun og framvísa vottorði frá lækni til að fá ökuskírteinið endurnýjað.

Læknisskoðun

Læknir athugar meðal annars sjón, heyrn og hreyfigetu ásamt öðru því sem hann telur að geti haft áhrif á aksturshæfni viðkomandi manneskju. Farið er með læknisvottorðið til sýslumanns eða lögrelgustjóra til að sækja um að fá ökuskírteinið endurnýjað. Það er hugsanlegt að læknir ráði frá því að menn fái endurnýjun á ökuskírteini.

Hæfnispróf

Stundum er farið fram á það hjá lögrelgustjóra að menn taki hæfnispróf til að fá ökuskírteinið endurnýjað.   Það fer þannig fram að prófdómari fer með umsækjandanum í bíltúr til að meta öryggi hans í umferðinni.   Ekki er um eiginlegt ökupróf að ræða, hvorki bóklegt né verklegt. Niðurstaðan úr hæfnisprófinu getur verið sú að mælt er með því að ökuskírteinið sé endurnýjað óbreytt, eða með skilyrðum, jafnvel því að umsækjandinn gangist aftur undir venjulegt ökupróf. Það er líka hugsanlegt að endurnýjun sé hafnað.

Það er rétt að skoða ökuskírteinið vel og vera tímanlega í að endurnýja.

 

Ritstjórn október 7, 2014 16:28