Eldra fólk hrætt við snjallsíma?

Er eldra fólk hrætt við snjallsíma, er spurning sem stundum heyrist. Guðmundur Jóhannsson sem starfar sem markaðssérfræðingur hjá Símanum vill ekki segja að eldra fólk sé hrætt við slíka síma, en flestir séu smeykir við nýja tækni sem þeir kunni ekki á. „Þá gildir“ segir hann, „að hafa aðgang að upplýsingum og að einhverjum sem er hægt að leita til. Sama hvort það er ættingi, fjölskylduvinur eða símafyrirtæki“.

Óteljandi símar

Guðmundur segir að það sé ákveðin breyting að skipta úr gamaldags farsíma, yfir í snjallsíma. Þar komi menn inní frumskóg, því tækin séu mörg og margvísleg. Hann segir að það sé aðalmálið að gera sér grein fyrir hvaða þörf maður hafi í þessum efnum og hvað maður vilji að síminn geri. Hann sagðist nýbúinn að fara í gegnum þetta með foreldrum sínum sem er orðin 67 ára.

Mamma með Nokia síma

Pabbi valdi síma með stærri skjá“, segir hann. „Hann er með stóra fingur og sér ekki nógu vel. Hann vildi líka síma sem virkar á móti heyrnartækinu sem hann er með. Þannig getur hann heyrt í símanum í heyrnartækinu sem er mikil framför fyrir hann. Mamma er ekki sérstaklega klár í tækninni og hún notar Nokia snjallsíma. Stýrikerfið í honum er svipað og það sem hún er vön úr tölvunni heima og í vinnunni, þannig að henni hefur gengið vel að læra á hann. Hún notar símann til að sjá tölvupóst og til að hringja og senda sms. Hún er líka á Facebook og tekur myndir á símann og setur þangað. Þetta gengur bara vel hjá henni“.

Til hvers ætlar fólk að nota símann?

Guðmundur mælir með því að þeir sem eru ekki mjög tæknivanir, skoði sérstaklega Nokía snjallsíma vegna þess að margir kannist við kerfið í honum. „En þetta fer auðvitað eftir því hvað hver og einn vill. Til hvers ætla menn að nota símann? Sumir vilja fylgjast með fréttum eða komast í heimabankann. Aðrir vilja taka góðar myndir og þetta þarf að skoða vel“.

Gott að byrja á miðlungssíma

Hann segir ekkert mál að beisla tæknina, en það þurfi að setjast niður með einhverjum og skoða það í rólegheitunum hvað fólk vill að tækið geri? Það sé ekki hægt að gera það á hlaupum. Úrval síma er mikið, en Guðmundur mælir með því að menn byrji á miðlungsgóðum síma. Hann segir ekki skynsamlegt að byrja á ódýrasta símanum, því það sé erfiðara að tileinka sér tæknina ef menn séu með tæki þar sem upplifun hennar er ekki nógu góð. Hann segir að miðlungsgóðir snjallsímar kosti milli 40 og 50 þúsund en verð þeirra fari alveg uppí 130 þúsund krónur.

Hvað passar þér?

Það þurfi að skoða hvernig síminn fer í hendi og hvað fólki finnist passa best fyrir sig. Hann segir það sína persónulegu reynslu að Nokia tækið sé með einfaldasta viðmótið en þó geti tækið allt sem aðrir snjallsímar gera. Ein hlið málsins sé líka sú, að menn vilji vera með sams konar síma og fólkið í kringum þá, einfaldalega vegna þess að þá er auðveldara að fá aðstoð.

Ritstjórn apríl 17, 2015 13:56