Eldra fólk í Vestmannaeyjum borgar ekki fasteignaskatt

Þeir Vestmannaeyingar sem eru 70 ára og eldri greiða ekki fasteignaskatta af íbúðahúsnæði sínu og hafa ekki gert undanfarin ár. Skoðanir á þessari ákvörðun voru nokkuð skiptar á sínum tíma og velferðarráðuneytið óskaði eftir skýringum á því hjá Vestmannaeyjarbæ á hvaða lögum þessi undanþága væri byggð „Við vísuðum fyrst og fremst í lög um málefni aldraðra, auk laga um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og fleira“, sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum þegar Lifðu núna forvitnaðist um málið hjá honum.  „Hið opinbera, þar með talið sveitarfélögin bera umtalsverða ábyrgð á málefnum aldraðra og lögin leggja sveitarfélögunum á herðar ákveðnar skyldur í húsnæðismálum eldri borgara.  Í viðbót við þá lágmarkskröfu sem lögin gera til okkar ber okkur siðferðisleg skylda til að gæta að mannvirðingu allra,  og þar með talið að auðvelda fólki að búa sem lengst á eigin heimilum.  Okkur fannst við ekki geta setið aðgerðarlaus hjá eftir hrun, þegar kjör eldri borgara voru skert verulega, það var ekki síst þess vegna sem þessi ákvörðun var tekin“, sagði hann.

Lifðu núna er ekki kunnugt um að fleiri sveitarfélög hafi farið að dæmi Vestmannaeyinga

Slæmt ef fólk hrökklast af eigin heimilum

Elliði sagði að bærinn hefði á seinustu árum ekki fengið neinar nýjar umkvartanir vegna þessa frá ráðuneytinu og þetta hefði reynst vel.  „Íbúarnir hjá okkur eru að eldast eins og annars staðar.  Fólk er að ná hærri aldri, sem er auðvitað ánægjulegt, en skapar okkur ný viðfangsefni.  Eldri borgarar eru einnig síbreytilegur þjónustuhópur og hinu endanlega þjónustustigi er aldrei endanlega náð.  Þannig eru eldri borgarar dagsins í dag oft við betri heilsu en áður og geta því rekið heimili sín lengur.  Tekjur eldri borgara lækka hins vegar á ákveðnu tímabili og það er slæmt ef fólk þarf að hrökklast af eigin heimilum vegna skattheimtu hins opinbera“ segir hann og bendir á að það kalli á aukin fjárframlög annars staðar. „Dýrasta úrræðið er stofnanaþjónusta og til viðbótar hinni almennu mannvirðingu þá er það hreinlega rekstrarlega hagkvæmt að hjálpa fólki að búa heima eins lengi og kostur er“.

Hefur reynst vel

Þegar það fer saman að það er hægt að veita betri þjónustu með hagkvæmari hætti, er að mati Elliða ástæðulaust að láta málin þvælast fyrir sér. „Þar sem er vilji, þar er leið“ segir hann og bætir við að sú leið að fella niður fasteignaskattinn hjá eldri borgurum í bænum hafi reynst vel. „Það er ánægja með þetta, bæði meðal eldri borgara og annarra í Vestmannaeyjum og á meðan svo er höldum við þessu áfram“, sagði hann.

Það er rétt að taka fram að eftir að þetta viðtal var tekið við Elliða fyrir helgina, gerðist það að Sjálfstæðismenn í Reykjavík boðuðu að þeir hyggðust fella niður fasteignagjöld hjá fólki 70 ára og eldra, kæmist flokkurinn til áhrifa í borginni að loknum sveitarstjórnarkosningunum.  Málið er umdeilt, til að mynda það hvort það fari í bága við lög að fella niður fasteignaskatta hjá ákveðnum aldurhópi.

Ritstjórn apríl 17, 2018 04:43