Eldri borgarar fái að vinna án þess að ellilífeyrir skerðist

Inga Sæland Flokki fólksins er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem miðar að því að eftirlaunafólk geti stundað launaða vinnu, án þess að það skerði ellilífeyrinn frá Tryggingastofnun ríkisins.  Átta aðrir alþingismenn, úr Flokki fólksins, Miðflokki og Pírötum eru meðflutningsmenn hennar. Þetta er frumvarp til breytinga á almannatryggingalögunum, en samkvæmt þeim hafa eldri borgarar sem stunda launaða vinnu, 100 þúsund króna frítekjumark, eins og staðan er nú. Það þýðir að þeir mega hafa 100 þúsund krónur á mánuði, án þess að það skerði ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir greiða hins vegar skatta af þessum aukatekjum eins og lög gera ráð fyrir. Fari launuðu tekjurnar hins vegar yfir 100 þúsund krónur á mánuði, fara þær að skerða ellilífeyrinn eftir ákveðnum reglum.

Á undanförnum árum hefur það verið nokkuð mismunandi hvernig farið hefur verið með atvinnutekjur eldri borgara.  Áður en nýju almannatryggingalögin tóku gildi um áramótin 2016/2017 var hið svokallaða frítekjumark atvinnutekna 109 þúsund krónur. Það lækkaði hins vegar niður í 25 þúsund krónur með nýju lögunum og gilti þá fyrir allar tekjur sem menn höfðu fyrir utan ellilífeyrinn, en var svo hækkað aftur í 100 þúsund krónur meðal annars vegna mikilla mótmæla eldra fólks.

Í greinargerð með frumvarpinu er vitnað í Dr. Hauk Arnþórsson sem vann úttekt á fjárhagslegri stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og um hana segir orðrétt í greinargerðinni.

Þar kemur fram að afnám skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.

Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna sbr. 23.gr. laga um almannatryggingar.

Ritstjórn október 10, 2018 08:02