Eldri borgarar hvattir til að bjóða sig fram í næstu sveitarstjórnarkosningum

Í ályktuninni um félags- og velferðarmál, sem var samþykkt á Landsfundi Landssambands eldri borgara í vikunni, er hvatt til þess að áfram verði unnið að því að færa málefni aldraðra til sveitarfélaganna, að því tilskyldu að fjármagn fylgi. Og síðar í ályktuninni er vikið að framboðsmálum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Landsfundurinn leggur áherslu á að málefni eldri borgara séu ávallt uppi á
borði í sveitarstjórnum landsins. Nauðsynlegt er að fulltrúar eldri
borgara komi meira að ákvörðunum sveitarstjórna en nú er. Landsfundurinn
skorar því á eldri borgara að berjast fyrir því að rödd þeirra heyrist í
sveitarstjórnum landsins. Besta leiðin til þess er að eldri borgari skipi
eitt af efstu sætunum á framboðslistum sveitarfélaganna Stefnum að því í
sveitarstjórnarkosningunum 2018.

Það kom fram í umræðum á fundinum að skiptar skoðanir voru um þetta mál, en ályktunin var að lokum samþykkt. Þeir sem gagnrýndu þetta, töldu mun skynsamlegra að eldra fólk berðist innan sinna samtaka. Það gæti hreinlega virkað öfugt að bjóða sig fram til sveitarstjórna, enda hvaða áhrif gæti einn eldri borgari sem næði kjöri haft?  Valgerður Sigurðardóttir sem stýrði á fundinum, starfi nefndarinnar um félags- og velferðarmál var algerlega ósammála þessu. Hún sagði við blaðamann Lifðu núna, að það hefði vakið athygli á framboðslistum fyrir síðustu alþingiskosningar, að fáir fulltrúar eldri kynslóðarinnar hefðu átt þar sæti. „ Yngra fólk var þar meira áberandi og er það vel en eðlilega eru þau með aðra sýn á lífsins leik en þeir sem eldri eru“, sagði hún. „Framboðslistar hvort heldur til sveitarstjórna eða Alþingis eiga að endurspegla aldurshópa þeirra sem hafa kosningarétt og helst sem flestra starfstétta. Eldri borgurum fjölgar og eru heilbrigðari en nokkru sinni fyrr með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í farteskinu. Því á sá þverpólitíski kraftur og baráttuvilji sem býr meðal þeirra sem standa á bak við ályktanirnar sem hér eru til umfjöllunar, að taka þátt í stjórnmálum og tryggja með þeim hætti  framkvæmd þeirra eins vel og kostur er.  Hvernig staðið verður að því þarf að ræða í tíma“, sagði Valgerður. Eldra fólk um land allt, hefur nú ár til að hugsa um hvort það vill taka þessari áskorun.

 

Ritstjórn maí 30, 2017 10:19