Eldri borgurum verði einnig tryggð lágmarkslaun

Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík fagnar gerð nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þar sem viðurkennd er sú krafa að lágmarkslaun hér á landi verði 300.000 krónur árið 2018. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér í dag. Þar segir einnig:

Yfirvöld hafa hins vegar ekki viðurkennt að þeir sem komnir eru á eftirlaun/lífeyri þurfi lágmarkslaun sér til framfærslu. Það er krafa Félags eldri borgara að öllum sem komnir eru á eftirlaun/lífeyri verði tryggð sambærileg hækkun og samið var um í nýgerðum samningum.  Í 69 gr laga um almannatryggingar segir að bætur almannatrygginga svo og greiðslur og fjárhæðir skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt  vísitölu neysluverðs.

Þá segir einnig í ályktuninni að sú launaþróun sem nú eigi sér stað verði því einnig, lögum samkvæmt, að ná til eftirlauna- og lífeyrisþega, og treystir Félag eldri borgara í Reykjavík á að stjórnvöld fari að lögum um málefni þeirra.

 

 

 

Ritstjórn júní 2, 2015 11:47