Eldri ferðamenn ævintýragjarnari en áður

Ferðaskrifstofur bjóða í auknum mæli uppá sérferðir fyrir þá ferðamenn sem eru orðnir sextugir og eldri, en þeir eru um fjórðungur allra ferðamanna í Evrópu. Samkvæmt tölum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er skammt í að þeir veði um þriðjungur ferðamanna í álfunni.

Vilja þægilegar ferðir og góða þjónustu

Þórunn Reynisdóttir framkvæmdastjóri hjá Úrvali Útsýn segir mikinn vöxt í sérferðum fyrir þennan aldurshóp, bæði í Evrópu og Bretlandi.  Þannig sé það einnig hér og Úrval Útsýn bjóði til dæmis uppá ferðir til framandi slóða svo sem eins og Balí, Jerúsalem, Thailands og Suður-Afríku.  Þá séu siglingar á skemmtiferðaskipum vinsælar hjá eldri kynslóðinni.  En Úrval Útsýn býður til dæmis siglingar um Austur-Karíbahaf og Suður- Kínahaf.  „Þessir ferðamenn vilja góða þjónustu og þægilegan ferðamáta. Þeir eru búnir að vinna hörðum höndum um ævina og eru nú tilbúnir til að njóta lífsins“, segir hún.

Ævintýri á efri árum

Svipað er uppá teningnum hjá Bændaferðum, sem hafa sérhæft sig í hópferðum fyrir fimmtuga og eldri. Bændaferðir bjóða á hverju ári upp á úrval framandi ferða til Kína, Suður Afríku, Perú og Víetnam svo dæmi séu tekin og eru t.d. eina íslenska ferðaskrifstofan sem hefur boðið uppá ferð til Suður-heimskautsins, en þangað fór hópur á þeirra vegum undir leiðsögn Ara Trausta Guðmundssonar.  „Á framandi slóðum er fólki sérstaklega mikilvægt að njóta traustrar leiðsagnar kunnugs fararstjóra í vel skipulagðri ferð. Það tryggir að fólk fái sem mest út úr ferðinni og sé í öruggum höndum“, segir Áslaug María Magnúsdóttir deildarstjóri hjá Bændaferðum, sem telur að þeir ferðamenn sem nú eru að koma inn, séu ævintýragjarnari en áður.

Ferðast til framandi staða

Hjá Ferðaskrifstofunni Farvel er boðið uppá ferðir til Asíu, en Farvel er arftaki ferðaskrifstofunnar Óríental, sem áður bauð uppá ferðir þangað. Viktor Sveinsson framkvæmdastjóri segist hafa fundið fyrir mikilli aukningu á straumi eldri farþega í þeirra ferðir á síðustu 2-3 árum. „Við höfum lengst af ekki verið með ferðir sem eru sérstaklega hugsaðar fyrir eldra fólk“, segir hann. „Okkar ferðir eru ávallt til framandi staða og það tekur yfirleitt um sólarhring að fljúga á okkar áfangastaði. En það virðist ekki stöðva fólk sem langar að kanna framandi slóðir í Asíu“

Gönguferðir um Laos og Víetnam

Viktor segir að aldur segi lítið um hvernig ferðir menn velji sér. Farvel hefur skipulagt margra daga gönguferðir um Laos og Víetnam fyrir fólk á áttræðisaldri og ferðaskrifstofan hefur einnig verið með fólk á sjötugsaldri í nokkuð erfiðum hjólaferðum í Kambódíu. „ Ef eitthvert mynstur má merkja hjá eldri farþegum þá er það helst að þeir forðast að ferðast á íslensku sumri. Velja fremur að fara af landi brott í skammdeginu, enda býður sá tími upp á besta veðrið á meginlandi Suð-Austur Asíu“, segir hann.  Hann segir að í vetur ætli Farvel bjóða uppá tveggja mánaða ferðir til Balí, sem sé nýlunda hjá þeim.

 

Ritstjórn ágúst 2, 2016 11:40