Engar bækur okkur óviðkomandi

Þriðja hvern þiðjudag kemur hópur fólks saman í Hæðargarði 31 til að skiptast á skoðunum um bók sem það hefur lesið. Bækurnar eru af ýmsum toga.

Ásdís Skúladóttir

Ásdís Skúladóttir

„Engar bækur eru okkur óviðkomandi enda eru í hópnum fróðleiksfúst, víðlesið og reynslumikið fólk á ýmsum sviðum atvinnulífsins.Við höfum lesið Íslendingasögur, skáldverk, ævisögur, ljóð, glæpasögur og gluggað í alfræðibækur,“ segir Ásdís Skúladóttir en hún kom bókahópnum á laggirnar.

Ásdís gegndi starfi forstöðumanns Hæðargarðs 31, fyrir um áratug. „Ég breytti ýmsu í starfseminni þegar ég tók við.Ég hafði áður verið starfsmaður Frístundahópsins Hana-nú í Kópavogi og þar stofnaði ég bókmenntahóp um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Síðan hef ég verið með bókmenntahóp hvern einasta vetur, þriðju hverja viku,“ segir Ásdís og bætir við að stundum hittist hópurinn oftar en þriðju hverja viku. „Það fer eftir atvikum,“ segir hún.

Spurning um áhuga ekki aldur

Nokkrar konur hafa tekið þátt í leshópnum í Hæðargarði frá upphafi og koma enn á fundi.

„Þetta er töluvert breytilegur hópur karla og kvenna, það koma um það bil 15 á hvern fund. Flestir eru komnir yfir miðjan aldur. Það er ekki algengt að fólk sé mikið undir fimmtugu nema þá helst rithöfundar, skáld eða bókmenntafræðingar sem koma á stóru fundina. Aðsóknin að hópnum er það mikil að fólk þarf að skrá sig í hann. Bókmenntahópur sem þessi virkar ekki ef það eru of margir,“ segir Ásdís.

það er mikil aðsókn að bókmenntaklúbbnum í Hæðargarði

það er mikil aðsókn að bókmenntaklúbbnum í Hæðargarði

Bókmenntahópur Ásdísar er hluti af U3A Reykjavík, The University or the Third Age Reykjavik, sem eru samtök fólks sem hætt er á vinnumarkaði eða farið að huga að starfslokum. Samtökin styðja stofnun áhugamannahópa um ýmis málefni.

„Það má líta á hann sem samvinnuverkefni við félagsmiðstöðina í Hæðargarði 31, en þar eru til staðar margir frjálsir hópar sem eru opnir öllum eins og U3A er, þetta er allt spurning um áhuga ekki aldur,“ segir Ásdís.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 13, 2014 09:30