Er ólán að eldast?

Benedikt Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar flutti nýlega erindi á málþingi um valdeflingu, forvarnir og virkni eldra fólks í samfélaginu. Erindið hét Er ólán að eldast? Þar rakti hann meðal annars ástæður þess að eldra fólk hættir að vinna. „Það dregur úr starfsorku fólks eða menn velja að hætta á vinnumarkaði“, sagði hann og bætti við að sumir hættu þar sem reglur á vinnustaðnum kvæðu á um að þeir ættu að hætta við ákveðinn aldur. Þá væri það stundum þannig að það borgaði sig hreinlega ekki fyrir eldra fólk að halda áfram að vinna.

Hver árgangur leggur til 20 milljarða króna

Á þessu ári verða um 3.000 einstaklingar hér á landi 67 ára, sem er hinn löglegi eftirlaunaaldur. Það er umhugsunarvert, sérstaklega í ljósi þess að heilsa starfandi fólks er almennt betri en þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði, að sögn Benedikts. Hann segir að flestum þyki gaman að vinna og þjóðfélagið græði á vinnu aldraðra. Þannig sé verðmæti vinnu hvers árgangs um 20 milljarðar króna á ári og samfélagið hagnist sem því nemur við hvert ár sem fólk heldur áfram að vinna. Þá minnki það einnig sjúkrahúskostnað ef fólk vinni lengur.

Að rýma fyrir unga fólkinu á vinnumarkaði

Því er stundum haldið á lofti að eldra fólk þurfi að rýma fyrir yngra fólki á vinnumarkaðinum. Benedikt benti á að vinna kvenna væri leyndarmálið á bak við efnahagsbata á seinni hluta 20. aldarinnar og engum heilvita manni dytti í hug að biðja konur um að rýma til á vinnumarkaði. Hver árgangur skapaði um 20 milljarða árlega með sinni vinnu og „hvers vegna dettur heilvita mönnum í hug að biðja einhvern að hætta að vinna, bara vegna þess að hann hefur átt mörg afmæli“, sagði Benedikts em sýndi mynd af heila á málþinginu. „Heilinn er skemmtilegt verkfæri, hann fer í gang við fæðingu og virkar þar til við verðum 67 ára!!! “, sagði hann.

Það er lán allra að eldast

Bendikt fjallaði einnig um lífeyrismál og lýsti því hvernig lífeyristekjur hækka, ef menn vinna lengur og fresta því að fara á eftirlaun. Áform eru uppi um að hækka eftirlaunaaldurinn hér á landi í 70 ár, en það mun gerast í áföngum á 24 árum. „Aldraðir eru hluti af samfélaginu og eiga að leggja sitt af mörkum ef þeir geta“, sagði Benedikt. Hann vill að mönnum sé gert kleift að vinna eins lengi og þeir vilja og geta. „Þá er lán allra að eldast“ sagði hann að lokum.

Ritstjórn mars 10, 2016 15:28