Erfitt þegar vinir falla frá

Það er sorglegt þegar vinir og jafnaldrar veikjast og deyja og mismunandi hvernig menn bregðast við því. Það þykir eðlilegt að að sýna hluttekningu, þegar fullorðið fólk missir aldraða foreldra en oft er annað uppi á teningnum ef vinir þeirra falla frá.  Natasha Josefowitz höfundur bókarinnar Að lifa án þeirra sem þú getur ekki lifað án, segir að fólk þyrpist að til að votta aðstanendum samúð sína, þegar einhver í fjölskyldunni deyr. „En ef það er vinur sem fellur frá, þá er ekki mikið um slíkt. Það er oft litið þannig á, að maður komi í manns stað og menn eigi jú fleiri vini“, segir hún í grein sem birtist á vefnum grandparents.com.

Það sem gerir það flóknara þegar vinir og jafnaldrar deyja, er að það snertir við hræðslu okkar við dauðann, sérstaklega hjá þeim sem eru farnir að eldast og eru að þokast nær endalokunum, jafnvel þó þeir eigi jafnvel áratugi eftir. Ef jafnaldra vinur eða kunningi greinist með lífshættulegan sjúkdóm eða fær hjartaáfall og deyr, getur það þá ekki allt eins komið fyrir okkur sjálf?  Að missa góðan vin gerir okkur viðkvæm, döpur og jafnvel óttaslegin.

En hvernig er best að takast á við það þegar  góð vinkona eða góður vinur fellur frá? Það skiptir máli hvernig menn gera það, ætli þeir að ná að vinna úr áfallinu og sætta sig við orðinn hlut. En hafa ber í huga að engar tvær manneskjur vinna á sama hátt úr sorginni, þannig að það er ekkert eitt algilt ráð við þessu sem hentar öllum. En hér eru nokkur atriði sem geta hjálpað við þessar kringumstæður.

  1. Skapaðu ákveðna siði í kringum vin þinn eða vinkonu. Settu mynd af henni á ákveðinn stað og spjallaðu reglulega við hana eða hlustaðu á uppáhalds lag eða ljóð sem þið höfðuð báðar gaman af. Það er mjög gott að skrifa sig frá hlutum, þannig að þú skalt skrifa eitthvað daglega, eða vikulega í bók sem er tileinkuð henni. Stílaðu það sem þú skrifar persónulega til hennar.
  2. Farðu vel með þig. Stundum verður fólk ákaflega þreytt þegar það verður fyrir skyndilegum missi og þarf að sofa mikið. Ekki berjast gegn því. Aðrir hafa þörf fyrir að gera eitthvað þegar þeir verða fyrir áföllum, svo sem að mála húsið, eða stinga upp beð í garðinum. Hvort sem þú syrgir á tilfinningalegum nótum eða með því að gleyma þér í verkefnum, leyfðu þér að gera nákvæmlega það sem þér finnst rétt þá stundina.
  3. Hafðu samband við aðra sem þekktu og þótti vænt um vin þinn eða vinkonu. Það er leið til að rifja upp minningar, að ræða við einhverja úr fjölskyldu vinarins, samstarfsmenn hans eða vini. Það vekur upp minningar, reiði, sorg, eða gleði yfir því að einhverjir aðrir geti skilið nákvæmlega hversu mikill missir okkar er. Og ávinningurinn af því er tvöfaldur. Þetta hjálpar bæði þér og viðmælandanum í sorginni.
  4. Sýndu þakklæti. Horfðu fyrst og fremst á það hversu lánsamur þú varst að hafa átt þennan góða vin eða þessa góðu vinkonu. Hversu miklu máli vináttan hefur skipt í lífi þínu. Þakkaðu fyrir allt sem hann/hún gaf þér, í stað þess að einblína á hvað þú hefur misst mikið.
  5. Haltu minningu hans/hennar á lofti. Kannski sá vinkona þín um að halda bókaklúbbnum þínum gangandi í mörg ár. Taktu við þessu hlutverki. Kannski var vinur þinn vanur að lesa með börnum í lestrarerfiðleikum. Þú getur haldið því áfram í minningu hans.
  6. Sættu þig við að ákveðin atvik geta vakið upp sorgina. Diane Snyder Cowan segir að fólk verði oft hissa á því að það fer kannski að snökta eða gráta alveg fyrirvaralaust við ákveðnar aðstæður. Jafnvel þó það telji sig hafa sigrast á sorginni. Það er kannski liðið ár frá andláti vinar þíns og þú ert orðinn að þér finnst sáttur við það, þá getur jafnvel gamalt bréf með rithönd hans vakið upp sorg og þú ferð allt í einu að snökta. Það er eðlilegt segir hún, og hvetur menn til að leyfa sér slíkt.
  7. Reyndu að bregðast ekki við óþægilegum athugasemdum sem fólk notar til að hugga þig. Stundum segja menn hluti eins og „Hún er komin á betri stað“ eða „Ég veit uppá hár hvernig þér líður“. Það er ekki satt, en í stað þess að andmæla, reyndu að skilja að þeir sem láta svona orð falla, eru í vandræðum og vita ekki hvað þeir eiga að segja. En ef vinir eða fólk úr fjölskyldunni heldur áfram að koma með svipaðar athugasemdir er allt í lagi að segja bara „Þakka þér fyrir, en mér líður ekkert betur fyrir það“.
  8. Ef ekkert virkar, leitaðu hjálpar. Það er hvorki heilbrigt, uppbyggjandi eða til að heiðra minningu vinar þíns eða vinkonu, að syrgja til eilífðarnóns. Ef þér finnst þú ekki geta unnið á reiðinni og sorginni á eðlilegan hátt, skaltu leita aðstoðar. Það er til dæmis hægt að tala við sálfræðing, fara í stuðningshóp eða tala við prest

Þessi grein er unnin uppúr grein á vefsíðunni Granparents.com og birtist hér stytt og staðfærð.

Ritstjórn janúar 4, 2018 10:52