Erum ekki einhver sem “minna mega sín“

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman skrifar

Lífeyrissjóðirnir eru sparifé okkar sem hvorki ríki né misvitrir stjórnendur sjóðanna hafa leyfi til að ræna og ráðskast með.

Við eigum ekki að taka það gott og gilt að nú ætlar ríkið bara að ræna 45% af lífeyrissjóðs greiðslum okkar til að niðurgreiða almennatryggingakerfið.

 

Hvað gerðu ný lög um almennatryggingar sem tóku gildi um ámót fyrir mig?  Ég tala um greiðslur eftir skatt.

Greiðslur frá lífeyrissjóð VR ( hef greitt í sjóðinn í 45 ár ) nóvembergreiðsla 2016 188,447 krónur janúargreiðsla 2017 189,105 krónur

Greiðslur frá TR nóvembergreiðsla 2016  62,166 krónur janúargreiðsla 2017  98,503 krónur. Þetta er heildar hækkun uppá 36,395 krónur

 

Þetta þykir mér ansi þunnur þrettándinn eftir öll loforðin og loforð stjórnmálamanna um bætt kjör til okkar eldri borgara og að nú eigi að leiðrétta hlut okkar.

 

Tilkoma Gráa hersins á síðasta ári sýndi og sannaði að við eldri borgar sættum okkur ekki lengur við það misrétti sem við erum beitt, með tekjutengingum, lágum greiðslum frá TR eftir langan starfsaldur og skerðingum.

 

Því til sönnunar er  nóg að benda á fjölsóttan útifund og fund í Háskólabíói með  stjórnmálamönnum í haust sem leið, þar sem slagorðin voru 300 ÞÚSUND KRÓNA LÁGMARK frá TR og ENGAR SKERÐINGAR

Við tökum ekki þátt í skemmtidagskrám, heilsurækt  eða borðum heilsusamlegan mat ef launum okkar er rænt.

 

Ég verð oft var við það, þegar ég ræði um þessi mál í hópi okkar eldri borgara að margir eru efins um að Grái herinn fái einhverju áorkað í þessum málum.  Það er komin tími til að við látum í okkur heyra.

 

Að lokum, þeir sem veljast til forustu í okkar hópi eiga ekki að tala um okkur sem þá  sem“minna mega sín“.  Lífeyrisréttindin eru áunnin réttindi

Greinin birtist fyrst á Lifðu núná í febrúar á þessu ári. 

Wilhelm Wessman ágúst 4, 2017 08:45