Erum við undirbúin fyrir Baby boomers?

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar

Nú eru stærstu árgangar Íslandssögunnar, og Vesturlanda almennt ef út í það er farið, að komast á lífeyrisaldur. Baby boomers hafa þessir árgangar verið kallaðir, barnasprengjan eftir síðari heimstyrjöldina. Þessir árgangar hafa ruðst inn í hvert kerfið á fætur öðru. Fáir voru leikskólarnir, barnaskóla varð sums staðar að þrísetja. Það var kennt í öllum kompum framhaldsskóla. Stórir árgangar færðu út mörkin og kölluðu á nýja hugsun og breytingar. Þetta eru kynslóðir stúdentauppreisna og þetta eru líka kynslóðir blómabarna og –byltinga. Þessir árgangar urðu með kröfum sínum og gerðum aflvaki stórstígra framfara í mannréttindum. Og nú eru þeir sem sé að ryðjast inn á þriðja æviskeiðið.

Miðað við fyrri reynslu má treysta því að kröfur þessara kynslóða verði aðrar til þjónustu og umhverfis en fyrri kynslóðir hafa sætt sig við. Þessar kynslóðir eiga meiri eignir, m.a. lífeyrissjóði, þær hafa betri menntun, eru betur nærðar og heilsubetri en áður hefur þekkst. Þær munu lifa lengur, líklega bæði við góða heilsu og síðan heilsuleysi. Við heyrum af háskóla þriðja æviskeiðsins, að fimmtugs sé hið nýja fertugs, eða var það að sextugs væri hið nýja fimmtugs? Það gildir einu. Eldra fólk í dag er almennt betur á sig komið nú en áður var, og gerir kröfur um lífsgæði og möguleika í samræmi við það.

En er þá farið að undirbúa innrás þessa fjölda inn í lífeyriskerfin, heilbrigðiskerfið, búsetuúrræðin, afþreyinguna o.s.frv. o.s.frv.? Við heyrum af því að verið sé að undirbúa hækkun lífeyristökualdurs. Hins vegar bendir umræðan um heilbrigðiskerfið ekki til þess að þar á bæ sé farið að huga alvarlega að þessum málum. Sama á við um húsnæðismálin. Ef vilji stendur til þess að eldra fólk sé sem lengst heima og sjái um sig sjálft þarf líka að vera framboð af íbúðum sem hæfa. Það er áreiðanlega líka vilji hinna eldri að ráða sér sjálfir sem lengst og það fer blessunarlega saman við hvað hagkvæmast er. En þá þurfa líka forsendur til þess að vera fyrir hendi.

Það hefur áður komið fram á þessum vef að fólkið af þessum kynslóðum séu virkir neytendur sem hafa í mörgum tilfellum efni á að gera vel við sig. Auglýsendur virðast þó ekki hafa kveikt á því ef marka má fjölda auglýsinga á vefnum. Aldursfordómar virðast enn slá marga blindu. E.t.v. er það vegna þess að umræða um eldra fólk er svo oft tengd fjölgun hjúkrunarheimila og lágum greiðslum Tryggingastofnunar. Sú mynd sem þannig er dregin upp bendir ekki til þess að stórir hópar, og vaxandi, séu virkir þjóðfélagsþegnar með þokkalegustu afkomu og góða heilsu. Og stórir hópar sem hafa áhuga á tísku, tækni og tónlist.

Það er mikilvægt að umfjöllun um eldra fólk taki mið af þeim fjölbreytileika sem í hópnum er og horfi til þess sem er að gerast vegna vaxandi fjölda en einskorðist ekki við varnarbaráttu þeirra sem höllustum fæti standa. Það þarf að standa vaktina vegna þeirra, en lausn þeirra mála á líka að vera hluti af því hvernig við viljum sjá samfélagið bregðast við, og taka við, hinum stóra fjölda sem nú er að ná þeirri skilgreiningu að vera eldra fólk; að vera komið á þriðja aldursskeiðiið.

 

Svanfríður Jónasdóttir nóvember 5, 2014 12:38