Erum við upp til hópa ósannindafólk

Kemst fólk af í þessum heimi án þess að ljúga. Líklega ekki. En lygi er ekki sama og lygi. Það er stór munur á saklausri hvítri lygi, ýkjum, að segja að hluta til rétt og satt frá  eða því að taka meðvitaða ákvörðun um að ljúga einhverju frá grunni, segir á vef DR Lev nu. Stundum notum við lygi til að vernda aðra og stundum okkur sjálf. Lygin hefur alltaf verið til, segir Henrik Högh-Olsen prófessor í félagsvísindum.  Hann segir að við notum lygina meira og minna meðvitað, hvernig við gerum það fari eftir þeim aðstæðum sem við erum í hverju sinni. Stundum notum við hana til að bæta stöðu okkar í samskiptum við aðra. Við reynum að sýna eitthvað í betra ljósi en það er eða við reynum að fela eitthvað. Við svindlum einfaldlega þegar við teljum að það sé þess virði. Það þýðir hinsvegar ekki að lygar borgi sig þegar til lengri tíma er litið. Henrik segir að það taki okkur ævina að byggja upp góða mynd af okkur sem manneskjum, sé fólk staðið að lygi geti það eyðilagt margra ára vinnu.

Við ljúgum yfirleitt ekki af því við erum útsmognar manneskjur. Það gera einungis siðblindingjar, segir sálfræðingurinn Charlotte Skeel. Við grípum til hvítu lyganna því við viljum ekki særa aðra, þær geta verið nauðsynlegar. Lygar þar sem við tökum tillit til annarra eru litnar allt öðrum augum en lygar sem eiga að sýna okkur sjálf í betra ljósi. Stundum segjum við ekki satt því okkur finnst erfitt að segja sannleikann  og þar með að standa með sjálfum okkur. Það þarf kjark og þor til að standa með sjálfum sér. Það getur verið erfitt að vera nógu og sterkur til að tjá eigin þarfir, segir Charlotte.

Anne Marie Mygind er höfundur nýrrar bókar um lygi. Í henni staðhæfir hún að við segjum að meðaltali ósatt fjórum sinnum á dag. Við ljúgum að athuguðu máli. Við prísum matinn sem borin er á borð fyrir okkur þrátt fyrir að hann sé ekki nógu og góður. Segjum að eitthvað sé fallegt sem er í raun og veru ljótt í okkar augum.  Við teljum okkur vera að styrkja samband okkar með þessum ósannindum. Líka þegar við ýkjum eitthvað eða segjumst hafa skilið eitthvað sem við skiljum ekki, það  eru líka lygar. Lygin er órjúfanlegur hluti af samskiptum okkar hvert við annað. Jafnvel þó við skilgreinum okkur sem fólk sem þolir ekki ósannindi, segir Charlotte. Skilningur okkar á sannleikanum er mismunandi frá manni til manns. „Við búum öll til okkar veruleika,“ segir Anne Marie.

Ritstjórn nóvember 17, 2017 09:48