Fá ekki að passa barnabörnin vegna drykkju

Sigurður Gunnsteinsson

Sigurður Gunnsteinsson

„Margt fólk sem komið er yfir miðjan aldur leiðist út í dagdrykkju án þess að átta sig á því. Ég drekk bara bjór er eitthvað sem við heyrum oft hjá SÁÁ. Svo kemur þetta fólk til okkar mjög illa á sig komið eftir að hafa verið að drekka í mánuð eða lengur. Fólk áttar sig hreinlega ekki á því að bjór er áfengi eins og sterkt vín. Alkahól er alkahól sama í hvaða formi það er,“ segir Sigurður Gunnsteinsson, ráðgjafi hjá SÁÁ. Eldri alkahólistum fer fjölgandi sem leita til SÁÁ og þeim á eftir að fjölga í takt við hækkandi aldur þjóðarinnar. Á síðasta ári komu 333 einstaklingar 55 ára og eldri í meðferð á Vogi, 118 konur og 215 karlar, til samanburðar komu 238, 55 ára og eldri á Vog 2003, þar af voru 71 kona og 153 karlar. Sigurður segir að menn hafi farið að taka eftir því að það væri að fjölga í þessum hópi eftir aldamót.

Slæmur kokteill

Hann segir að það megi skipta hópi eldri alkahólista í tvennt. SÁÁ opnaði fyrstu meðferðarstöðina 1977 og þeir sem komu ungir til okkar þá eldast eins og aðrir, sumir hafa fallið og leita því til okkar aftur. Svo eru það þeir sem fara að drekka ótæpilega eftir miðjan aldur. Þetta er fólk sem hefur notað áfengi vandræðalaust alla ævi en svo gerist eitthvað. Fólk hættir að vinna, verður veikt, missir maka eða skilur og leiðist í kjölfarið út í drykkju. Sigurður segir að flestir í eldri hópnum sem koma á Vog greinist með áfengissýki, mun fleiri en þeir sem háðir eru svefn- eða róandi lyfjum. „Það er ákveðinn hópur sem drekkur ofan í lyf. Fólk áttar sig ekki á því hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft. Áhrifin af alkahólinu geta orðið allt önnur og meiri ef fólk drekkur ofan í lyf. „Þá verður útkoman úr tveir plús tveir ekki lengur fjórir, heldur átta,“ segir hann.

Leyna drykkjunni

Margir detta og meiða sig en það dettur aldrei neinum í hug á bráðmótttökum eða heilsugæslustöðvum að spyrja fólk út í áfengisnotkun þegar fólk leitar þangað með ýmisskonar meiðsl sem má rekja til

Margir draga það í lengstu lög að leita sér hjálpar á Vogi.

Margir draga það í lengstu lög að leita sér hjálpar á Vogi.

áfengisnotkunar. Heilbrigðiskerfið þarf að fara að átta sig á þessum vanda og það þarf að fræða fólk um afleiðingar af of mikilli drykkju á efri árum og hvaða áhrif það hefur að drekka ofan í lyf. Margir leyna líka drykkjunni eftir fremsta megni. Fólk situr heima og drekkur, eitt eða með maka sínum.

Vilja ekki að afi og amma fari í meðferð

„Margir sem komnir eru á efri ár skammast sín fyrir drykkjuna og leita sér því síður hjálpar,“ segir Sigurður. „Það eru ákveðnir fordómar í gangi hjá fólki sem fætt er um og fyrir miðja síðustu öld gagnvart alkahólisma. Bæði eigin alkahólisma og annarra. Börn eldri alkahóista skammast sín líka oft fyrir neyslu foreldranna eða afa og ömmu. Margir geta hreinlega ekki hugsað sér að afar eða ömmur, jafnvel langafar eða langömmur fari í meðferð á Vog. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á það hjá SÁÁ að aðstandendur komi í viðtöl til okkar og fjölskyldumeðferð sé talin þörf á því,“ segir hann.

Aldrei of seint að fara í meðferð

„Það er aldrei of seint að fara í meðferð. Sama hversu gamalt fólk er. Lífsgæðin aukast umtalsvert við það. Oft er það til að mynda svo að fólk er hætt að treysta foreldrum sínum til að passa barnabörnin vegna þess að þau drekka of mikið. Eldra fólk sem drekkur of mikið einangrast líka mjög oft félagslega,“ segir Sigurður. Hann segir að yfirleitt gangi mjög vel fyrir eldra fólk að ná bata frá alkahólisma. „Fólk sem fætt er um miðja síðustu öld skynjar ábyrgð með öðrum hætti en yngra fólk. Það tekur betur við ráðleggingum og mætir betur á fundi. Það er líka fljótt að finna fyrir þeim breytingum sem verða á lífinu við það að hætta að drekka,“ segir hann.

Kynlífið verður betra

Eldra fólki gengur vel að ná bata á Vogi.

Eldra fólki gengur vel að ná bata á Vogi.

„Líkamleg heilsa batnar, svefninn og kynlífið verður betra,“ segir Sigurður og bætir við: „Þessu fylgir betri sálræn heilsa og betri líðan almennt, stórbætt hugarfarsleg geta, minni kvíði og þunglyndi, minnkandi lyfjaþörf og fleiri gleðistundir.  Bjartsýni, hlátur og gamansemi verður aftur hluti af lífinu. Dagarnir verða fjölbreyttari og fá tilgang sem áður var að mestu leyti glataður. Og kannski verður mesta breyting til batnaðar á félagslegri heilsu þegar einangrun rofnar og tengsl við annað fólk myndast á ný og trosnuð fjölskyldubönd styrkjast. Fólk býr til ný sambönd, vináttusambönd, ástasambönd og lætur jafnvel til sín taka á vettvangi félagsmála og þjóðmála,“ segir Sigður að lokum.

Ritstjórn ágúst 14, 2015 13:05