Fagmennska og siðferðisvitund

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur virðast almennt eiga erfiðara með að fá vinnu nú en oft áður. Sagt er að það skipti jafnvel ekki máli þótt viðkomandi hafi þá hæfileika sem verið er að leita að. Vinnuveitendur vilja víst bara yngra fólk. Þetta er auðvitað ekkert alveg nýtt, en er kannski meira áberandi nú vegna stöðunnar á vinnumarkaðinum.

Einhver sagði um daginn að það væri að komast á jafnvægi á vinnumarkaði. Atvinnuleysi hefði minnkað og nálgist nú jafnvægisgildi, en skráð atvinnuleysi er í kringum 5%. Að kalla það jafvægi hefði þótt skondið hér áður fyrr, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. En margt virðist hafa breyst í kjölfar þess sem gekk hér á og náði hámarki með bankahruninu haustið 2008. Þeir sem tala um 5% atvinnuleysi sem jafnvægi setja markið hins vegar ekki hátt, að minnsta kosti ekki út frá hagsmunum samfélagsins í heild. Því varla getur það verið hagkvæmt fyrir heildina, að fara jafn illa með verðmæti og raun ber vitni, þegar starfskraftar fólks eru ekki nýttir vegna kennitölu þess. Hvað verður þá um allt talið og grobbið um mannauðinn á hátíðarstundum, þegar því er haldið fram að mannauðurinn sé hin raunverulegu verðmæti fyrirtæja, en þegar á reynir þá er það oftast einmitt mannauðnum sem fyrst er fórnað. Hagtölur ýmiss konar, sem geta hugsanlga komið vel út til skammst tíma litið, virðast nefnilega skipta meira máli fyrir þá sem stjórna á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins en mannauðurinn. Það er eins og sumum þyki bara í lagi að þau auðæfi sem liggja í menntun og reynslu fólks fari í súginn þegar svo ber undir.

Næsta víst er að margar skýringar geta verið á því, hvers vegar þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur eiga erfiðara með að fá vinnu nú en áður. Ég hef til að mynda áreiðanlegar heimildir fyrir því, að verkfræðingur með um 20 ára starfsreynslu hefði fengið það framan í sig fyrir nokkru, þegar honum var hafnað í auglýst starf sem hann sótti um, að hann hefði allt of mikla reynslu. Á sama tíma koma svo talsmenn atvinnulífsins fram og segja að það vanti tæknimenntað fólk. Annar umsækjandi um annað starf með enn meiri reynslu af vinnumarkaði og tvær háskólagráður í farteskinu fékk að heyra það, að hann hefði of mikla menntun. Kannski er reyndar hægt að skilja þetta, þegar hugsað er til þess að það eigi að neita þeim sem komnir eru yfir 25 ára aldur um vist í framhaldsskóla. Getur verið að það sé eftir allt saman bara óhollt fyrir fólk að mennta sig? Enn ein hugsanleg skýring gæti verið sú, að einhverjir telji að eldra fólk láti í einhverjum tilvikum síður að stjórn en þeir sem yngri eru. Þetta kom upp í hugann þegar mér varð hugsað til atviks á stórum vinnustað fyrir nokkrum árum. Stjórnandi á staðnum hundskammaði ungan og nýjan starfsmann, sem hafði ekki gert það sem hann átti að gera nákvæmlega eins og stjórnandinn vildi. Eftir yfirhalninguna, sem flestir í kallfæri urðu vitni að, og þegar nýi starfsmaðurinn hafði verið sendur á sinn vinnubás, sagði stjórnandinn hróðugur við nærstadda, að starfsmaðurinn myndi hafa gott af skömmunum og niðurlægingunni. Svo bætti stjórnandinn við að hann nyti þess að brjóta nýja starfsmenn niður til að byggja þá upp aftur eftir eigin höfði. Kannski hefði þessi stjórnandi ekki látið svona við starfsmann sem var nær honum sjálfum í aldri, sem náttúrlega dregur úr möguleikum þroskaðs fólks, ef stjórnandinn virkilega nýtur þess að láta svona. Svona nokkuð hlýtur hins vegar að heyra til algjörra undantekninga.

Siðfræðihópur rannsóknarnefndar Alþingis, sem falið var að rannsaka siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna haustið 2008, kom ekki inn á þessi mál með beinum hætti í sinni vinnu, sem gerð var opinber í apríl 2010. Í lokaorðum skýrslu starfshópsins segir hins vegar meðal annars, að frá siðferðilegu sjónarmiði sé til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið, bæta viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund.

Það getur varla verið, að það efli fagmennsku og siðferðisvitund, að hafna starfskröftum þeirra sem eldri eru, af því bara. Svo er það bara eitthvað svo langt frá því að vera gáfulegt.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson desember 9, 2014 15:13