Falleg með sitt gráa hár

Þórdís Guðmundsdóttir var ljóshærð á sínum yngri árum en fór að grána við 45 ára aldur.“ Ég prófaði að láta setja í mig strípur en kunni ekki við það“, segir hún. „Foreldrar mínir urðu bæði gráhærð og mér fannst þau falleg með sitt gráa hár“.

Hætti að lita hárið á vorin

Þórdís í sumri og sól

Þórdís í sumri og sól

Á þessum árum var Þórdís á Ítalíu á sumrin, þar sem hún vann m.a. við kórskóla hjá Margréti Pálmadóttur. „Ég grínaðist með það að Ítalirnir vildu hafa konur þroskaðar og hætti að lita á mér hárið á vorin. Svo varð ég útitekin og hárið lýstist í sólinni og smám saman fór ég að lengja Ítalíutímabilið.  Strákarnir mínir spurðu „Mamma ætlarðu að fara að vera svona?“  og ég svaraði „Já, ég held það“, og þar með var málið útrætt.  Hárgreiðslumaðurinn minn hann Svavar sagði að ég yrði að fara annað ef ég vildi láta lita á mér hárið“, segir hún.

Grátt einn af litum lífsins

Þórdís segir að viðbrögðin hafi að mestu verið jákvæð og sumar konur öfundi hana af að hafa stigið skrefið að halda gráa hárinu.  „Konur segja stundum við mig að þær langi til að verða gráhærðar, en óttast að liturinn verði ekki fallega grár“ segir hún og bætir við að fyrir sig hafi þetta eiginlega komið af sjálfu sér. „Ég virði það og skil að konur vilji lita á sér hárið en hef hvatt þær konur sem langar til að prófa að hætta að lita hárið að gera það. Í því felst frelsi og ég hef aldrei tengt grátt hár við aldur“, segir hún. „Fyrir mér er grátt bara einn af lífsins litum“.

Ritstjórn júlí 28, 2015 10:00