Félagsleg einangrun skaðlegri heilsunni en offita

Skyndilegur makamissir eða slys sem veldur því að fólk kemst ekki út úr húsi getur valdið því að fólk einangrast félagslega. Fólk getur líka einangrast þegar það er bundið yfir veikum maka sínum í lengri eða skemmri tíma. Aðrir þættir sem geta stuðlað að félagslegri einangrun er þegar fólk fer að tapa heyrn og sjón eða það verður ófært um að aka bíl, þetta kemur fram kemur í grein á vefnum aarp.org. Lifðu núna stytti og endursagði.

Félagsleg einangrun er þegar fólk dregur sig smátt og smátt í hlé og tengsl við samfélagið, fjölskyldu, vini og kunningja fjara út. Talið er að einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum 65 ára og eldri séu félagslega einangraðir.

Heilbrigðisfólk og aðrir sem koma að umönnun eldra fólks veita því ekki næga athygli þegar fólk er byrja að einangrast og  það vanmetur stórlega hvaða áhrif félagsleg einangrun hefur á heilsu fólks, segir forseti AARP samtakanna, Lisa Marsh Ryerson. Sérfræðingar segja mikilvægt að sjá fyrstu merki félagslegrar einangrunar og bregðast við strax því hún hafi afar slæm áhrif á andlega jafnt sem líkamlega heilsu.

Julianne Holt-Lunstad og Timothy Smith, sem bæði eru prófessorarar við Brigham Young háskólana segja að langvarandi félagsleg einangrun hafi jafn slæm áhrif á heilsu fólks og að reykja 15 sígarettur á dag og hún sé skaðlegri en offita.  Félagsleg einangrun er talin stuðla að hærri blóðþrýstingi og gera fólk næmara fyrir ýmsum smitsjúkdómum svo sem inflúensu, þar að auk geti hún flýtt fyrir að fólk fái heilahrörnunarsjúkdóma.

Þeir sem einangrast félagslega eru oft tregir til að að leita sér hjálpar eða eru ekki færir um það. Þess vegna segja sérfræðingar AARP að það sé svo mikilvægt að aðstandendur og aðrir sjái í tíma hvort einhver sé að einangrast og bjóði fram hjálp sína. Þeir segja að það verði að hafa í huga að það sé ekki hægt að þvinga einhverri einni lausn upp á fólk, það verði að gefa viðkomandi tækifæri til að segja hvað hann eða hún vilji helst gera. Hvort sem það er að fá einhvern í heimsókn, fá hjálp við að stíga fyrstu skrefin við að heimsækja félagsmiðstöðvar fyrir aldraða eða annað það sem í boði er fyrir þennan aldurshóp.

Merki um félagslega einangrun

Fólki leiðist, það er áhugalaust um umhverfi sitt og annað fólk

Persónulegu hreinlæti er ábótavant

Fólk borðar næringarsnauðan mat/ eða neytir lítils matar

Fólk hættir að halda hreinu heima hjá sér

Ritstjórn júlí 11, 2018 10:15