Fimm atriði varðandi fjármál sem þarf að huga að við starfslok.

Fjármál og persónulegir hagir breytast þegar fólk hættir að vinna. Björn Berg Gunnarsson deildarstjóri  hjá VÍB skrifar ágætan pistil á vef Íslandsbanka um fimm atriði sem er ástæða til að hafa á hreinu við starfslok. Hann segir afar mikilvægt að menn kynni sér þau fyrir starfslok,en því miður sé afar algengt að fólk kynni sér málin lítið sem ekkert áður en það hætti að vinna.  Þau fimm atriði sem Björn Berg bendir á eru þessi.

Hafðu samband við lífeyrissjóðinn þinn og fáðu yfirlit yfir réttindi þín. Ef þú vilt skoða möguleika þess að hefja úttekt fyrr eða síðar geta starfsmenn sjóðsins auðveldlega sagt þér hversu mikið réttindin munu aukast eða minnka. Það er algjört lykilatriði að vita hvaða greiðslum þú átt von á.

Hvar og hvernig er séreignarsparnaðurinn ávaxtaður? Ef þú ert ósátt(ur) er yfirleitt lítið mál að færa sig eða skipta um ávöxtunarleið. Sparnaðurinn, sem er undanskilinn fjármagnstekjuskatti, er laus við 60 ára aldur en það er ekki þar með sagt að það borgi sig alltaf að taka hann strax út. Tekjuskattur er greiddur við úttekt og því þarf m.a. að hafa skattþrep í huga.

Hverju áttu von á frá Tryggingastofnun? Við 67 ára aldur öðlumst við rétt á bótum frá Tryggingastofnun. Heimilt er að fresta úttekt og auka þannig réttindi en skoða þarf vandlega hvernig tekjur úr ýmsum áttum t.d. laun, vextir og lífeyrir, koma mögulega til með að skerða greiðslur frá TR.

Náðu yfirsýn yfir skuldir heimilisins. Yfirdráttarlán og aðrar dýrar skuldir er best að reyna að losa sig við sem fyrst. Heildartekjur okkar lækka yfirleitt við starfslok og getur greiðslubyrði lána því orðið okkur þyngri en áður. Fáðu upplýsingar um skilmála lánanna þinna, t.d. varðandi uppgreiðsluheimildir og vexti.

Hvernig viltu ávaxta sparnaðinn þinn? Þeir vextir og ávöxtunarkostir sem henta fara eftir því hver ætlunin er með sparnaðnum. Ef við höfum svigrúm til að binda fjármagn fjölgar kostum og við getum bundið fé á talsvert hærri vöxtum. Ríkisskuldabréf og hlutabréf henta sumum en þau krefjast þolinmæði og góðrar dreifingar.

Björn Berg bendir á að dýmætir fjármunir séu í húfi og segir starfsmenn VÍB hafa sérhæft sig í fjármálum þeirra sem stefna á að hætta að vinna, og veita ráðgjöf og upplýsingar án endurgjalds.

 

Ritstjórn júní 21, 2014 17:11