Fleiri eldri konur stunda lotudrykkju

Eldri konum í Bandaríkjunum sem drekka of mikið fer fjölgandi samkvæmt nýrri rannsókn. Það sem veldur mestum áhyggjum er að fjöldi kvenna 60 ára og eldri sem stunda lotudrykkju hefur farið vaxandi hin síðari ár. Bandaríska lýðheilsustofnunin skilgreinir lotudrykkja karlmanna sem fimm áfenga drykki sem neytt er á innan við tveimur tímum, lotudrykkja kvenna er skilgreind sem  fjórir áfengir drykkir á innan við tveimur klukkustundum. Lýðheilsusérfræðingurinn Rosalind Breslow  segir að lotudrykkja geti verið mjög hættuleg heilsu kvenna enda þoli þær áfengi ver en karlar. „Alkahólmagn í blóði kvenna sem drekka jafn mikið og karlar verður hærra og hefur verri áhrif á heilsu þeirra,“ segir Breslow. Hún stýrði rannsókn þar sem drykkjumynstur karla og kvenna 60 ára og eldri var skoðað. Rannsóknin hófst árið 1997 og henni lauk 2014. Í ljós kom að lotudrykkja kvenna jókst að jafnaði um fjögur prósent á ári en drykkja karlanna stóð nokkurn veginn í stað. Þrátt fyrir það eru mun fleiri karlar sem drekka of mikið en konur.

Rannsóknin náði til 65 þúsund karla og kvenna af þeim voru 6.500 lotudrykkjumenn og 1700 lotudrykkjukonur. Skýringin á því að konur eru að auka drykkjuna geta verið nokkrarar segir Breslow og nefnir að þær séu líklegri til að lifa menn sína og aðra sér nákomna. Það leiði til þunglyndis og einmannaleika og það auki hættuna á misnotkun á áfengi. Konur sem drekka of mikið eiga meðal annars á hættu að fá skorpulifur, tapa minni og fá krabbamein.

 

 

Ritstjórn maí 23, 2017 11:33