Flensan farin að stinga sér niður

„Það er ekki of seint að láta bólusetja sig við inflúensu þó hún sé farin að stinga sér niður,“ segir Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins og bendir á að þeir sem orðnir séu 60 ára fái ókeypis flensusprautur. Fyrstu inflúensutilfellin greindust fyrir áramót og síðan hafa nokkur tilfelli komið upp. Flensan í ár virðist ekki sérlega skæð, allavega ekki enn sem komið er.

Geta leitað læknis

„Það eru nokkur dæmi um að fólk sem komið er yfir miðjan aldur hafi leitað til lækna með inflúensulík einkenni. Þeir sem eru orðnir fullorðnir og með undirliggjandi sjúkdóm geta farið til læknis ef grunur leikur á að þeir séu með flensu,“ segir Guðrún. Hún segir að undanfarið hafi fólk verið að ræða hvort bólusetning gegn inflúensu, í vetur, sé ekki jafn góð vörn og undanfarin ár.Yfirleitt ganga nokkrir inflúensustofnar í einu, en talið er að bóluefnið gangist gegn öðrum stofnum en þeim sem ber auðkennið  A(H3N2).

Minni virkni 

„Rannsóknir erlendis á  þessum stofni inflúensunnar sem nú er farin að láta á sér kræla benda til að bóluefnið geti haft minni virkni í ár en undanfarin ár,“ segir hún og bætir við að raunveruleg virkni bóluefnisins fáist eingöngu með því kanna hversu stór hluti bólusettra einstaklinga sýkist.  „Það verður ekki ljóst fyrr en inflúensan hefur geisað í nokkurn tíma.“ Guðrún segir að menn verði að  hafa í huga að þó bóluefnið veiti hugsanlega ekki fullkomna vörn þá verði fólk ekki jafn veikt sem fær flensu og þeir sem létu ekki bólusetja sig.

Ritstjórn janúar 14, 2015 10:50