Fólk á að hafa val um hvernig þjónustu það fær

Sigrún Björk Jakobsdóttir

 „Þörfin fyrir alhliða heimaþjónustu eykst mjög hratt hér á landi í takt við fjölgun í hópnum 65 ára og eldri.  Fólk á að geta valið hvort það nýtir sér þjónustu hins opinbera eða sérhæfðrar þjónustu einkaaðila.“ Þetta segir nýr framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu, Sigrún Björk Jakobsdóttir.

Biðtími eftir plássi á hjúkrunarheimilum er sífellt að lengjast og þarf fólk oft að bíða mánuðum saman eftir viðeigandi úrlausn.  Heilbrigðisráðherra hefur nýverið lýst því yfir að áætluð sé stórsókn í málefnum aldraðra, í uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og þá ekki síður í að efla heimhjúkrun og aðra þjónustu sem styður einstaklinga til sjálfstæðrar búsetu.

Framkvæmdastjóri Sinnum segir þetta mikilvæg áform enda séu lífsgæði falin í því að geta búið heima eins lengi og hægt er, en oft sé aðgengi að viðeigandi velferðarþjónustu lykillinn að þessu. „Við getum lært af grönnum okkar í Svíþjóð. Þeir hafa byggt upp þjónustukerfi fyrir aldraða sem er bæði sinnt af sveitarfélögunum eða útvistað til fyrirtækja.  Íbúinn hefur valið og um fjórðungur eldri borgara þar nýtir sér þessi fyrirtæki.  Sveitarfélögin hafa eftirlitshlutverk og niðurgreiða í þeim tilvikum sem íbúar eiga rétt á því.“ Sigrún telur mikilvægt að slíkt val sé líka í boði hér.

Sinnum hefur starfað um árabil og er þjónustan margþætt, einstaklingsmiðuð og sveigjanleg en hjá fyrirtækinu starfa m.a. fagaðilar á heilbrigðis- og félagssviði.  Sinnum býður upp á alhliða heimaþjónustu við einstaklinga sem vegna aldurs, fötlunar, heilsubrests eða annarra persónulegra aðstæðna þurfa á þjónustu að halda við daglegt líf.  Þjónustukaupendur eru bæði sveitarfélög og einstaklingar.

„Við viljum sjá það fara saman að yfirvöld, bæði ríki og sveitarfélög leggi áherslu á að ná samþættingu og samfellu í þjónustu við aldraða og að aðgengi og val á þjónustu verði aukið til þess að stuðla að auknum lífsgæðum og öryggi aldraðra í landinu“, segir framkvæmdastjórinn að lokum.

Ritstjórn mars 8, 2018 06:43