Geggjaðir þorskhnakkar á Grenimel

Hrefna Ólafsdóttir háskólakennari á Grenimel er meistarakokkur og eldar alveg sérstaklega hollan og góðan mat, enda búin að vera á kolesteról snauðu fæði í áratugi og þarf að gæta að heilsunni. Hún segist ekki elda mikið eftir uppskriftum, en lesa matreiðslubækur til að fá hugmyndir. Þorskhnakkarnir sem hún eldaði nýlega og bar fram með soðnum kartöflum og grænmetissalati, voru hreint lostæti. Við fengum Hrefnu til að rifja upp hvernig hún eldaði þennan frábæra rétt, þar sem eiginleg uppskrift var ekki fyrir hendi. Hún var til í það og Lifðu núna kann henni bestu þakkir fyrir.

Þorskhnakkar fyrir fjóra

800 – 1000 gr þorskhnakkar skornir í bita og raðað í eldfast mót. Saltað og piprað eftir smekk.

Safi úr einni límónu kreistur yfir bitana og einnig er sett örlítð af lífrænt ræktaðri olífuolíu yfir þá.

Grænu pestói er síðan smurt ofan á hvert stykki.

Harður geitaostur er rifinn yfir pestóið.

Fersk basilíka er síðan sett ofan á ostinn

Graskersfræ eru hituð örlítið á pönnu og söltuð. Þau eru mulin og síðan dreift yfir þorskstykkin. Örlítil olífuolía sett yfir.

Eldfasta mótið er síðan sett í ofn sem er 200 gráðu heitur og bakað í 12-14 mínútur.

Grænmetissalat

Í salatið er notað blaðsalat og klettasalat saman. Avocado og rauð paprika. Yfir salatið er sett lífræn handgerð arganolía og örlítið salt.

Kartöflur

Kartöflurnar eru soðnar og flysjaðar. Yfir þær er hellt bráðnu smjöri með saxaðri steinselju.

 

Ritstjórn maí 4, 2018 11:40