Gengur niður Laugaveginn og heyrir ekki orð á íslensku

„Ég verð 64 ára á morgun,“ segir Kristinn R. Ólafsson útvarpsmaður, þýðandi og leiðsögumaður með meiru, þegar tíðindamaður Lifðu núna heilsar uppá hann í Kópavogi. Þar býr hann nú, en hann flutti alkominn heim fyrir fjórum árum eftir að hafa búið í 35 ár í Madríd.  „When I get older, losing my hair…“ rifjar hann upp úr texta Bítlanna í laginu When I´m sixty four.  En segist ekki vera farinn að missa hárið enn og geri það kannski ekki úr þessu.

Á enn erindi til Madrídar  

„Ég kom fyrst til Spánar árið 1974 og var tvo vetur í Barselónu. Árið eftir geispaði Franco golunni og vegferð landsins til lýðræðis hófst, þannig að ég man tímana tvenna.“ Hann kynntist spænskri stúlku Sol Álvarez frá Madríd, þau giftust eftir að hann settist þar að í árslok 1977. Þau eiga saman eina dóttur Öldu Sólrúnu og tvö barnabörn.  Alda er menntaður blaðamaður og vann um tíma hjá El País, stæsta dagblaði Spánar, en starfar nú við kynningarmál hjá Vísindaráði Spánar. „Þannig að ég á svo sem erindi til Madrídar,“ segir Kristinn og kveðst einmitt vera að fara þangað í helgarferð í október sem fararstjóri.

Kristinn og Anna

Kristinn og Anna

Ekki á leið til Spánar að sinni

„Helgina á eftir verð ég svo í Róm við fararstjórn og síðan er það helgi í Flórens, einnig með íslenska ferðamenn.“ Þó hann sé á ferð og flugi segir hann ekki inni í myndinni að flytja aftur til Spánar að sinni. Hann býr með íslenskri konu, Önnu Baldvinu Jóhannsdóttur, sem hann segir ekki eiga heimangengt. „Hún er sex árum yngri en ég og í fullri vinnu sem hún vill ekki sleppa í bili. Ég hef í gegnum hana eignast yndislega fjölskyldu og barnabörn, eins og hún hefur líka eignast barnabörn í gegnum mig. Það er ein hér á öðru ári sem kallar mig afa og þekkir mig ekki öðruvísi.“

Kristinn varð landsfrægur fyrir pistla sína sem voru á óvenju kjarnyrtri íslensku

Kristinn varð landsfrægur fyrir pistla sína sem voru á óvenju kjarnyrtri íslensku

Búið að klippa á þann naflastreng

Flestir sem eru komnir yfir miðjan aldur muna útvarpspistla Kristins R. En nú verða þeir ekki fleiri. „Ég hef aldrei getað lifað á RÚV-inu einu saman og nú er líklega búið að klippa endanlega á þann naflastreng. Pistlunum mínum þar var sagt upp í síðustu viku. Núna síðast var ég með pistla á hálfsmánaðar fresti í Mannlega þættinum.“  Kristinn byrjaði með útvarpspistlana1981 og starfaði þannig í um 35 ár við pistlagerðina fyrir útvarpið, með stuttu hléi þegar hann brá sér yfir á Bylgjuna og Stöð 2 í hálftannað ár.  Hann skýtur á að hann hafi á þessum tíma samið um 4000 pistla og á síðari árum hefur hann einnig hljóðunnið þá.

Hljóðritar pistla undir sæng

„Frá aldamótum hef ég algerlega séð um að vinna pistlana sjálfur, séð um hljóðvinnslu og allt. Ég minnist þess í ferð heim til Íslands einu sinni að þá kom ég á fréttastofuna til að skrifa pistil, en þar var þá alltof mikill erill fyrir mig einyrkjann. Ég er vanur að vinna í mínu horni og búa til mitt eigið hljóðver. Það hefur gefist vel að sitja með tækin og hljóðrita pistlana undir sæng. Ég hef líka hljóðritað í fataskáp. Það var á hótelherbergi í Sevilla. Það var svo mikið bergmál í herberginu.  Ég hringsnerist til að finna góðan stað og endaði með því að taka efnið upp inni í skáp,“ segir Kristinn, vanur að bjarga sér sjálfur. Hann hefur mörg járn í eldinum; hefur bæði skrifað eigin bækur og unnið talsvert að þýðingum. T.a.m. snaraði hann ásamt fyrrverandi eiginkonu íslenskum þjóðsögum á spænsku. Í vetur fékk hann það skemmtilega verkefni að lesa nokkrar þeirra inn fyrir Vegahandbókina. Á þær má hlusta í gegnum app í síma þegar verið er á ferð um Ísland. Hann spilar þessar sögur líka í ferðum sínum með spænskumælandi ferðamenn um landið og þær hafa fengið góðar undirtektir.

Kristinn hefur þýtt margar bækur á spænsku, meðal annars þessa

Kristinn hefur þýtt margar bækur á spænsku, meðal annars þessa sem hann skrifaði sjálfur

Hvers vegna eru kindurnar alltaf þrjár saman?

Kristinn byrjaði leiðsögn hér heima fyrir fjórum árum. „Ég er aðallega með spænskumælandi fólk og fór t.d. nokkra hringi með Spánverja í kringum landið í sumar. Það er heiður að vera tengiliður milli slíkra gesta og lands og þjóðar. Það eru ekki bara fjöll, firnindi og fossar sem menn vilja sjá,“ segir hann.  Það sé verið að spyrja um land og þjóð og hann reyni að veita sem gleggst svör út frá sínum sjónarhóli. „Það er spurt um stöðu eldri borgara, menntakerfið, fjölskylduna og svo þessi algenga spurning, hví kindurnar við veginn séu alltaf þrjár saman. Það verður að segja þeim frá eldfjöllum, hrauni, söndum og öllu mögulegu. Ég tala líka um íslenskar bókmenntir, fornbókmenntir, íslenska tungu og allan fjárann.“

Leiðsögumaðurinn hefur sérhæft sig í að taka hálfur, sbr sjálfur ef myndin er af öllu andliti þess sem tekur myndina

Leiðsögumaðurinn hefur sérhæft sig í að taka hálfur, sbr sjálfur ef myndin er af öllu andliti þess sem tekur myndina

Ísland í tísku

Kristinn segir að á helstu ferðamannastöðum sunnanlands og líka í Mývatnssveit fyrir norðan, séu ferðamenn orðnir mjög margir. „Það berst í tal í mínum ferðum hvað hér séu margir ferðamenn og ég held að við verðum að passa okkur. Við megum ekki skemma söluvöruna.“ Hann er þeirrar skoðunar að það þurfi að dreifa ferðamönnunum betur um landið og segist ekki skilja hvers vegna Egilsstaðir séu ekki notaðir að einhverju leyti sem fyrsti áfangastaður ferðalanga sem hingað koma.  „Þeir sem ég er með fara ánægðir til baka og bera Íslandi vel söguna. Spánverjar segja að Ísland sé í tísku.  Allir þekkja einhvern sem hefur farið til Íslands, er að fara, eða langar til að fara.  Spánverjar eru dolfallnir yfir vatninu og fossunum, enda er sums staðar á Spáni erfitt að nálgast vatn. Fótboltinn hefur líka haft sín áhrif, ég tók að mér hóp Mexíkóa um daginn og þeir spurðu strax hvernig það væri með fótboltann. Sögðust hafa haldið með Íslandi á EM.“ Kristinn segir að í þau fjögur ár sem hann hafi verið í leiðsögninni hafi ýmislegt lagast. „Það hafa verið byggð hótel og gisting er orðin betri. Farþegar hjá mér eru yfirleitt ánægðir með gistinguna og matinn, en þykir landið dýrt.“

Fer með Íslendinga til útlanda

En Kristinn er ekki bara leiðsögumaður spænskumælandi ferðamanna á Íslandi. Hann hefur líka lengi verið farartjóri fyrir Íslendinga erlendis. Hin síðari ár einungis fyrir ferðaskrifsofuna VITA:  Spánn, Ítalía, Grikkland, eða Kúba eru nokkur þeirra landa þar sem hann hefur verið við fararstjórn. Og borgirnar orðnar margar: Madríd, Barselóna, Sevilla, Flórens, Palermo, Aþena, Istanbúl, Havana, svo að eitthvað sé nefnt. Og nú eru Madríd, Róm og Flórens framundan. „Á Spáni hefur Barselóna verið meira í tísku hjá Íslendingum en Madríd, en nú finnst mörgum komið nóg af túristum þar,“ segir Kristinn og segir hættu á því sama hér.

Sperrir eyrun ef einhver segir jæja

Hann segir að fyrir fjórum árum hafi hann stundum átt leið um miðborg Reykjavíkur að kvöldi til og  þar hafi verið fátt fólk. „Bara eins og maður átti að venjast.“  En tveimur árum seinna hafi breytingin verið orðin rosaleg. „Þetta hefur sínar ljósu og dökku hliðar. Er mikilvægt fyrir efnahaginn og lífgar uppá bæinn. Maður gengur niður Laugaveginn og heyrir ekki orð á íslensku. Sperrir eyrun ef maður heyrir einhvern segja  „jæja“. Ég hef á tilfinningunni að þetta sé einhvers konar síldarævintýri. Það vantar alla heildarsýn. Ég veit ekki hver hún ætti að vera en skil ekki hvað menn eru feimnir við ferðamannaskatta. Þeir voru teknir upp á Spáni í mörgum héruðum og þeir sem gista í Barselónu þurfa t.a.m. að greiða gistigjald fyrir hverja nótt.  Það segir enginn neitt við því. Það er rukkað inn í þjóðgarða heimsins og á Spáni greiða menn fyrir aðgang t.d. að söfnum og gömlum höllum.“

Kristinn 19 ára í MA formaður félagsins Saltators, sem var fyrir utanbæjarbubba sem kunnu hrafl í latínu

Kristinn 19 ára í MA, formaður félagsins Saltators, sem var fyrir utanbæjarbubba sem kunnu hrafl í latínu

Var latínugráni

Kristinn fæddist í Vestmannaeyjum og ólst þar upp til 16 ára aldurs. Hann var kominn til Spánar uppúr tvítugu. „Það var mikið ævintýri.  Ég fór mállaus til Spánar, kunni ekkert nema já og nei og haltu kjafti. En þetta kom fljótlega, enda bjó ég að málakunnáttunni úr MA þar sem ég lærði meðal annars latínu.“  Hann segir einnig hafa hjálpað að hafa lært ensku og frönsku í mennaskólanum. „Ég var latínugráni,“ segir hann en þetta orð er notað um mann sem hefur gaman af latínu. Kristinn fór í spænsku í háskólanum í Barcelona en segist aðallega hafa verið að læra að lifa fyrsta árið í borginni. „Ég lærði málið aðallega af daglega lífinu og næturlífinu,“ en hann hefur þýtt fjölda bóka úr íslensku yfir á spænsku og starfaði í hópi norrænna þýðenda sem þýddi norrænar bókmenntir á spænsku.

Filippus annar gerði Madríd að höfuðborg Spánar

Kristinn gerþekkir Madríd eftir langa búsetu þar, en Íslendingar hafa almennt frekar lagt leið sína á baðstrandir Spánar en inní landið.  Madríd er inní miðju landinu í 650 metra hæð og hefur engin tengsl við sjóinn.  Þar er heldur ekkert stórfljót.  „Hún varð höfuðborg af því að Filuppusi öðrum Spánarkóngi veltist þannig vömbin að setja hirðina þar niður um miðja 16. öld.“ Madríd sé falleg og lífleg borg. „Þarna er mikið kvöld- og næturlíf, fagrar byggingar og öll helstu söfn Spánar, svo sem Prado-safnið sem geymir öll helstu málverk þjóðarinnar fram á 19. öld eftir listamenn eins og Velázquez, Goya eða El Greco.“  Kristinn segir hitann geta farið yfir 40 stig  í borginni á sumrin. Þangað sé best að fara á haustin og vorin. Á Madrídarsvæðinu búa milli 4 og 5 milljónir manna, þar af  2 milljónir í sjálfri borginni.  „Hún er ein af stóru menningarborgunum í Evrópu. Þar blómgast menning og viðskipti, póltíska valdið liggur þar, þó valddreifing hafi aukist á Spáni.“  Kristinn kveður Madríd hafa tekið miklum breytingum frá því hann kom þangað fyrst. „Þegar ég settist þar að var hún hálfgerð afdalaborg, en núna er á henni miklu meiri alþjóðabragur, með erlendum nýbúum og fleiri ferðamönnum.“ 

Hjóluðu til Akureyrar á fjórum dögum

Kristinn segist ekki líta neinum augum á aldur. „Sem betur fer finn ég ekki mikið fyrir honum. Ég nenni ekki að tala um sjálfan mig sem gamlingja. Ég tók uppá því að fara að hjóla eins og bavíani þegar ég kom heim. Vinur minn skoraði á mig að hjóla til Akureyrar á 40 ára stúdentsafmælinu. Við hjóluðum þetta á fjórum dögum. Aldur er svo afstætt hugtak. Árafjöldinn segir ekki endilega til um aldurinn, heldur líkaminn. Sumir eru fæddir hundgamlir. Mér finnst mikilvægast að líta fram á veginn og gera eitthvað á meðan maður getur. Ég hef heldur ekki efni á öðru en vinna fram í rauðan dauðann. Ég hef sem betur fer ekki yfir neinu að kvarta. Það heldur mér gangandi að hjóla. Það er gott fyrir líkamann, en ekki síður fyrir sálartetrið. Ég á sumarhjól og vetrarhjól með nagladekkjum, og reyni að hjóla daglega. 64 ára er virðulegur aldur. Tíminn gefur reynslu og hæfileika sem stundum virðast þó ekki mikils metnir.“

 

 

Ritstjórn september 16, 2016 12:10