Geta hipparnir átt áhyggjulaust ævikvöld?

Eftir helgina hefjast á sjónvarpsstöðinni Hringbraut þættir sem heita Okkar fólk í umsjón Helga Péturssonar. „Í þessum þætti verður rætt um málefni eldra fólks á Íslandi, sem merkilegt nokk hefur verið ýtt til hliðar í samfélaginu“, segir Helgi. Hann segir miklar breytingar framundan sem menn hafi almennt ekki gert sér grein fyrir. Það hafi verið stefnan undanfarin 25 ár að allir gætu búið heima hjá sér sem lengst.

Vantar 300-400 hjúkrunarrými núna

Það hafi hins vegar verið dregið saman í þjónustu við eldra fólk eins og aðra í samfélaginu og nú sé búið að teygja þetta markmið lengra en eðlilegt geti talist. „Fólk er í dag lengur heima en það er fært um. Þetta er uppsafnaður vandi sem nú er að hellast yfir menn“, segir Helgi. „Það vantar 300-400 rými á hjúkrunarheimilum núna strax, en rekstur á einu hjúkrunarrými kostar um eina milljón króna á mánuði“.

Hipparnir að komast á eftirlaun

„Og nú eru hipparnir að koma“, segir Helgi. „Það eru fjölmennustu árgangar Íslandssögunnar sem nú fara brátt á eftirlaun. Menn halda að framundan sé áhyggjulaust ævikvöld en framlag lífeyrissjóðanna er minna en menn hafa talið. Þessi kynslóð er ekki farin að velta þessu mikið fyrir sér. Margir eru skuldugir og hafa lent í hremmingum fjárhagslega“.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tómur

„Til að rekstur þjóðfélagsins gangi, þurfum við að vinna til 75 ára aldurs. Við sem héldum að við myndum geta farið í bíó, eða niður að Tjörn með barnabörnunum að gefa öndunum“, segir hann. „Það eru gríðarleg verkefni framundan að breyta þessu kerfi. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er tómur, það vita allir. Það er rætt um sameiginlegan lífeyrissjóð sem gæti þýtt stórkostlega breytingu á kjörum og hækkun ellilífeyrisaldurs í 70 ár“.

Stórt gat í hugmyndum um hækkun eftirlaunaaldurs

Helgi segir að það sé hins vegar stórt gat í þessum hugmyndum. „Það er fullkomlega galið að vísa fimmtugum konum út af vinnumarkaðinum. Það verður ekki liðið því það er einfaldlega ekki hægt. Það er ekki hægt að hækka lífeyrisaldurinn í 70 ár og svo gengur stór hópur fólks atvinnulaus“. Helgi segir að farið sé að ræða þetta og menn séu að sjá að það þurfi að einhenda sér í þessi verkefni sem enginn hefur nennt að sinna.

Steinsteypuaðallinn hefur undirtökin

Helgi gagnrýnir líka húsnæðismál eldra fólks. „Steinsteypuaðallinn hefur undirtökin hér eins og annars staðar. Það hafa verið byggðar íbúðir hér fyrir aldraða sem hafa reynst okur og svikamyllur eins og dæmin sanna. Í þáttunum Okkar fólk verður tekið á þessu breiða úrlausnarefni“. Fyrsti þátturinn verður á þriðjudaginn klukkan 20:00. Sjá stiklu um þáttinn hér.

 

Ritstjórn september 25, 2015 10:59