„Goðsögnin um ófullnægjandi eldri starfsmenn“

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson varafréttastjóri skrifar

„Goðsögnin um ófullnægjandi eldri starfsmenn.“ Þetta var fyrirsögn á grein í New York Times fyrir skömmu (The Myth of the Deficient Older Employee). Í greininni er því haldið fram að algengar kenningar um getuleysi eldri starfsmanna séu rangar. Það er byggt á raunverulegum rannsóknum prófessora við við alvöru háskóla í Bandaríkjunum og Frakklandi og hafa verið birtar í alvöru vísindatímariti, The American Economic Review.

Örlög miðaldra starfsmanna

Við þekkjum öll sögurnar af miðaldra fólki, sem missti vinnuna og átti erfitt með að fá vinnu aftur, þrátt fyrir hæfni og reynslu. Almennt er talað um að það fólk hafi ekki sömu starfsorku, eigi erfiðara með að laga sig að breytingum, og sé óeðlilega varfærið. Ég óttast að stundum losi ungi stjórnendur sig við eldra fólk af því að þeir óttast að það sjái í gegn um þá. Sérstaklega hefur þetta komið illa niður á eldri konum.

Bullið um reynsluna

Fyrir nokkrum árum komst það í tísku að meira en þriggja ára gömul reynsla væri einskis virði. Hver stjórnunarfræðingurinn öðrum meiri hélt þessu fram. Þeir virtust tala í fúlustu alvöru. Engir vita betur hvílíkt bull þetta er en unga fólkið, sem stanslaust spyr sér eldra fólk ráða. Eitt það hættulegasta sem gerist í stjórn fyrirtækja, stofnana eða í stjórnmálum er þegar samhengi rofnar í reynslu og þekkingu. þá eyðir fólk tíma og orku í að finna upp hjólið.

Áhætta, samkeppni og samvinna

Það voru viðbrögð fólks og ákvarðanir á þessum sviðum, undir 30 ára og yfir 50, sem voru rannsökuð. Gary Charness við Univeristy of California Santa Barbara og Marie Claire Villeval við Lyon háskóla í Frakklandi gerðu rannsóknina. Það gefur henni aukið gildi að hún skuli gerða beggja vegna Atlantshafs.

Skýrar niðurstöður

Niðurstöðurnar voru skýrar.  Eldra fólkið stóð sig eins vel eða betur en yngra fólkið í áhættu og samkeppni. Í samvinnu og samstarfi stóðu þeir eldri sig betur. En merkilegasta niðurstaðan er þó sú, að hópar með fólk á öllum aldri stóðu sig betur en hópar þar sem aldursdreifing var lítil, hvort sem fleiri voru yngri eða eldri.

Ólafur Sigurðsson júlí 4, 2016 11:50