Hægt að borða sinnep öðruvísi en bara ofan á pylsur

Svava Hrönn Guðmundsdóttir segir að hún hafi fengið mikla athygli út á það að hún skuli hafa stofnað fyrirtæki rúmlega sextug. Það hafi komið sér á óvart, því hún hafi verið alin upp við að aldur skipti ekki máli og að maður ætti alltaf að reyna að gera heldur meira en maður gæti. Hún sér enga ástæðu til að hætta að vinna 67 ára og stefnir að því að koma með fleiri tegundir af sinnepi á markaðinn og fleiri vörur sem sinnep er notað í. „Mamma vann fram undir áttrætt“, segir hún.

Missti vinnuna fyrir hrun

Svava Hrönn er búin að reka fyrirtækið Sælkerasinnep Svövu í tvö ár. Hún er lyfjafræðingur, en missti vinnuna skömmu eftir hrun og ákvað þá að drífa sig í nám í viðburðastjórnun í Háskólanum á Hólum. „Í rekstrarfræðihluta námsins áttu nemendur að gera áætlun um stofnun fyrirtækis og þá fór ég í að gera áætlun um Sælkerasinnep Svövu“, segir hún.  Hún tók svo þátt í Gulleggskeppninni og fékk við það bæði reynslu og alls kyns sambönd.  Hún fékk síðan styrk frá Atvinnumálum kvenna til að koma fyrirtækinu á laggirnar.

Mynd sinnep 1Seldi fyrstu sinnepskrukkuna í Hörpu

Svava sem bjó í Svíþjóð í nokkur ár, fór að gera sinnep til að hafa með jólaskinkunni eftir að hún kom heim til Íslands.  Hún segist hafa verið með sænskan bækling með átta sinnepsuppskriftum og farið að prófa sig áfram út frá þeim. Hún fékk aðstöðu fyrir sinnepsgerðina hjá Matís í Grafarholti, en þar er hægt að leigja sér aðstöðu í vottuðu eldhúsi í heilan eða hálfan dag. „Það hefði kostað alltof mikið að koma sér upp eigin aðstöðu“, segir hún. Hún mætti með sinnepið á Matarmarkað Búrsins í Hörpunni og seldi fyrstu sinnepskrukkuna þar í nóvember árið 2014. Nú selur hún sinnepið sitt í sérverslunum á höfuðborgarsvæðinu, í Melabúðinni, Heilsuhúsinu, Þinni verslun Seljabraut og Búrinu. Á Akureyri fæst það í Fisk Kompaníi og Langabúri og á Selfossi í Fjallkonunni.

Sinnep úr íslenskum jurtum

Svava segir að hún hafi fyrst og fremst farið út í þetta til að skapa sér vinnu, en staðan á vinnumarkaðinum hafi ekki verið glæsileg í hruninu.  „Ég hefði getað fengið vinnu seinna, en ákvað að halda áfram að þróa sinnepið og fleiri vörur úr því. Takmark mitt er að kenna Íslendingum að borða fjölbreyttar vörur úr sinnepi, eins og gert er í öðrum löndum, til að mynda Þýskalandi“, segir Svava.  Hún segist ætla að koma sinnepi úr íslenskum jurtum á markaðinn.

Fyrirtækið borgar seint og illa

„Ég er ekki orðin rík af þessu ennþá“, segir Svava og hlær.  „Ég segi nú stundum að það sé borgað seint og illa í þessu fyrirtæki. En þetta er allt á réttri leið“, segir hún og segir það ekki freista að snúa tilbaka á vinnumarkaðinn. „En það þarf mikla þrautsegju í þetta, þetta gerist ekki á einum degi. Þrautsegju og hugmyndaflug. Ég taldi mig nú ekki hafa sérstaklega mikið hugmyndaflug, en það kom á daginn að það var ekki rétt“ segir Svava.  Hún hefur með aðstoð sérfræðinga Matís, gert alls kyns tilraunir með að blanda íslenskum jurtum, svo sem blóðbergi, bláberjum, kúmen og hvönn í sinnepið.

Mynd sinnep 2Hægt að nota sinnep á fjölbreyttan hátt

Hún hefur ekki gert miklar áætlanir um starfsemi fyrirtækisins og segir að tengdadóttir hennar hafi aðstoðað hana fyrir jólin og telur hugsanlegt að börnin hennar gætu haft áhuga á að taka við rekstrinum þegar fram líða stundir. „En mér finnst spennandi að kenna Íslendingum að borða sinnep á fleiri vegu en bara ofan á pylsur. Það má nota sinnep ofan á brauð og í alls konar matargerð“, segir frumkvöðullinn Svava og er hvergi nærri hætt.

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 22, 2016 14:58