Hægt að skipta lífeyrisréttindum milli hjóna og sambúðarfólks

Fólk sem er gift eða í sambúð getur skipt lífeyrisréttindum á milli sín, telji það hag sínum betur borgið með því móti.  Almennt gildir, að skiptingin verður að fara fram áður en fólk fer að taka út lífeyrinn, eða fyrir 65 ára aldur, nema eingöngu sé sótt um greiðsluskiptingu.  Það er hins vegar alls ekki víst að það komi sér alltaf best að skipta með sér lífeyrisréttindunum og þess vegna er nauðsynlegt að skoða vel hvert tilvik og leita ráða hjá lífeyrissjóðnum sínum, séu menn að íhuga þessa leið.

Sótt er um skiptingu lífeyrisréttinda með því að fylla út umróknareyðublað og önnur gögn hjá lífeyrissjóðum. Þessum gögnum ásamt læknisvottorði er annað hvort skilað til sjóðsins sem síðast var greitt í, eða í þann sjóð þar sem viðkomandi hefur mestu réttindin.

Allt að 50% lífeyris getur runnið til maka

Samkomulagið um skiptingu lífeyrisréttinda getur náð til þriggja atriða, þ.e. greiðsluskiptingar, réttindaskiptingar og svo iðgjalds og framtíðarréttinda.

Við greiðsluskiptingu greiðist lífeyririnn hjónum eða sambúðarfólki  jafnt, þó það hafi mismunandi lífeyrisréttindi. Fólk getur sótt um greiðsluskiptingu á öllum aldri. Þetta er í raun eingöngu greiðsla til maka þess sem á réttindin í sjóðnum og stendur og fellur með sjóðfélaganum. Falli hann frá, fellur greiðslan niður.

Ef menn sækja um réttindaskiptingu,skiptast áunnin réttindi beggja einstaklinga jafnt á milli þeirra, þó svo að annað hjóna eða sambúðarfólks hafi áunnið sér meiri réttindi en hitt. Þetta kemur sér sérstaklega vel, þar sem konan í sambandinu hefur lítil lífeyrissjóðsréttindi. Hægt er að jafna lífeyririnn  þannig að allt að 50% hans renni til makans.

Í þriðja lagi er hægt að skipta með sér iðgjaldinu og  framtíðarréttindum. Þá er fólk að gera ráð fyrir að lífeyrisréttur sem það á eftir að ávinna sér, skiptist milli makanna eða sambýlinganna.  Algengast er að menn noti blöndu af þessu tvennu, þ.e. skiptingu á réttindum sem þeir hafa áunnið sér og skiptingu á framtíðarréttindum. Annar aðilinn getur sagt slíkum samningi upp einhliða.

Hver er maki?

Fyrir þá sem vilja sækja um að deila lífeyrisréttindum sínum er rétt að ítreka að það er einungis hægt að sækja um skiptingu á þegar áunnum réttindum áður en fólk verður 65 ára.  Svo getur það verið spurning hver er maki og hver ekki. Skilgreining á  maka er samkvæmt lögunum sem um þetta gilda, þannig:

Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt  lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í tvö ár.

Það er rétt að ítreka að það kemur ekki alltaf best út fyrir fólk að skipta með sér lífeyrisréttindunum og ástæða til að fá ráðgjafa hjá lífeyrissjóðunum til að fara vel yfir málið með sér, ef menn eru að skoða þennan möguleika. Samþykki lífeyrissjóðirnir umsókn fólks um að deila með sér lífeyrisréttindum sínum, fær það tilkynningu þar um. Stundum er slíkum umsóknum hafnað og þá vegna þess að talið er að sjóðfélagi sé haldinn sjúkdómi sem dragi úr lífslíkum.

Það er einnig ástæða til að taka fram að fyrir þá sem hafa til dæmis greitt í B-deild LSR eða lífeyrissjóði sveitarfélaganna, er ekki víst að það borgi sig fyrir hjón eða sambúðarfólk að skipta áunnum lífeyrisréttindum með sér. Makalífeyrir þessara sjóða er í mörgum tilvikum mjög öflugur, sem gerir samkomulag af þessu tagi óþarft.  Meðal yngri kynslóðarinnar er algengt að hjón eða sambúðarfólk séu bæði útivinnandi og eigi þar af leiðandi góð lífeyrisréttindi hvort um sig. Þá skiptir minna máli að deila réttindunum.

Ritstjórn febrúar 22, 2017 11:44