Hætta á tábergssigi á háu hælunum

Ósk Óskarsdóttir

Það er stundum haft á orði, að menn eigi ekki að spara við sig  þegar þeir kaupa skó og heldur ekki þegar þeir kaupa rúm.  Varðandi skóna, þá eru þeir auðvitað undirstaða alls. Það sem við stöndum á.  Ósk Óskarsdóttir hjá Fótaaðgerðastofu Reykjavíkur segir mikilvægt að skórnir séu með stífan hælkappa, sem haldi vel utanum hælinn og að sólinn sé sveigjanlegur.  Þetta hljómar svolítið eins og allir eigi að ganga í fótlaga skóm, en Ósk segir ekkert að því að bregða sér í flotta tískuskó.

Hún segir að inniskór séu mikilvægir. Menn eigi ekki að ganga á töflum, heldur inniskóm með hælbandi. Þegar fólk gangi í töflum kreppi það tærnar ósjálfrátt  til að halda þeim á sér. Þá komi það stundum fyrir að menn missi af sér töflurnar eða hrasi á þeim. „Fyrir fólk sem er á ferð og flugi í vinnu allan daginn, til dæmis á sjúkrahúsum, mæli ég með inniskóm með hælbandi“, segir hún.

Ósk segir að skór skipti miklu máli á öllum aldri. Þegar lítil börn séu að byrja að ganga skipti skórnir meginmáli.  Hún mælir ekki með því að gengið sé á háum hælum allan daginn, þó það sé allt í lagi að bregða sér í hælaskó.  Það sé hætta á að konur fái tábergssig af háu hælunum.  Það sé þó skárra þegar hællinn sé breiður og þykkur botn á móti undir sólanum. „Ég varð mjög glöð þegar þessi tíska kom“, segir Ósk, sem telur betra fyrir konur svona almennt að ganga á lágbotna skóm. „Mæður okkar voru alltaf á hælaskóm og þá styttist hásinin. Þegar það gerist eiga konur erfitt með að fara alveg á flatbotna skó.

Ritstjórn mars 16, 2017 11:29