Hafa ekki val um að vakna á morgnana og vinna fyrir sér

Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Alþingi í morgun að menn töluðu stöðugt fyrir því að bætur ættu að hækka og hækka og það þurfi að stórhækka bæturnar, á sama tíma sé fólk í fullri vinnu sem sé ekkert betur sett en lífeyrisþegar. Bjarni lét þessi orð falla í óundirbúnum fyrirspurnum.

Lífeyrisþegar hafa ekki val

Það var Árni Páll Áranson Samfylkingu sem vildi fá skýringar á ummælum sem Bjarni lét falla í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni. Árni sagði að mikið hefði verið fjallað um það á undanförnum dögum og vikum hvort bætur almannatrygginga ættu að hækka með sama hætti og kjarasamningar í landinu. Fjármálaráðherra hefði gefið út þá yfirlýsingu að ekki væri að búast við að bæturnar hækki afturvirkt. „Það vekur sérstaka athygli í ljósi þess að við höfum heyrt frá einstökum þingmönnum stjórnarflokkanna alvarlegar efasemdir um þá leið sem stjórnarflokkarnir feta í þessu máli. En hæstvirtur fjármálaráðherra gekk lengra og sagði, með leyfi forseta: „Það er líka til fólk sem er í fullu starfi, vaknar snemma á morgnana og vinnur allan daginn við að hafa í sig og á og sitt fólk. Það hefur ekki meira á milli handanna en þeir sem treysta á bæturnar.“

Sérkennileg ummæli

Árni Páll Árnason.

Árni Páll Árnason.

„Mér finnst þetta mjög sérkennileg ummæli í ljósi þess að fólk sem er á ellilífeyri eða örorkulífeyri hefur ekki val um það að vakna á morgnana og vinna fyrir sér. Ef um aldraða er að ræða þá er fólk bundið af eftirlaunaaldri og í tilviki örorkulífeyrisþega getur fólk ekki unnið fyrir sér,“ sagði Árni Páll og vildi að fjármálaráðherra skýrði orð sín. „Hvert er hann að flytja umræðuna með því að grafa einhvern veginn undan samstöðu í samfélaginu um að lífeyrisþegar eigi að njóta jafnstöðu á við fólk á lægstu launum, og reyna að búa til einhverja úlfúð á milli fólks á lægstu launum og lífeyrisþega, reyna að gefa þá ímynd að það sé ógn við þá sem vinna fullan vinnudag, því það er það sem má ráða af þessum ummælum, ef lífeyrisþegar fái mannsæmandi og sambærileg kjör? Hvað eiga þessi ummæli að fyrirstilla,“ spurði Árni Páll.

Bætur hækkað umfram laun

Bjarni sagði aðbætur almannatrygginga hækkuðu að fullu til jafns við launaþróun í landinu. Bætur hækki um 9,7 prósent um áramót. „Þegar við bætist 3% hækkun frá 1. janúar á þessu ári þá er alveg ljóst að bætur hafa á þessu 12 mánaða tímabili hækkað umfram almenna launaþróun í landinu. Síðan eru dagsetningar í kjarasamningum sem geta leitt til þess þegar fram í sækir að þessi tröppugangur gengur eitthvað á mis og hvor hópurinn getur fari fram úr hinum.“ Ráðherrann sagði að það sé gríðarlega mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það sé fólk á vinnumarkaði sem er ekkert mikið betur sett.

Hvatar skipta máli

„Menn tala stanslaust fyrir því að bætur hækki og hækki, það þurfi að stórhækka bæturnar, en á sama tíma er fólk í fullri vinnu sem er ekkert mikið betur sett. Hvers vegna skyldi það skipta máli? Það er erfitt að koma því í hausinn á samfylkingarfólki að hvatar skipta máli. Fjölgun öryrkja er t.d. orðið sjálfstætt og sérstakt vandamál og viðfangsefni á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum reyndar líka. Við getum fagnað í sjálfu sér að dregið hefur úr fjölguninni, en hún er raunverulegt vandamál,“ sagði fjármálaráðherra ennfremur.

Ritstjórn desember 14, 2015 14:25