Háskóli þriðja æviskeiðsins fær styrk frá Evrópusambandinu

Háskóli þriðja æviskeiðsins,U3A, er alþjóðlegur skóli ætlaður þeim sem eru komnir á þriðja aldurskeiðið, eins og það er kalllað. Það þýðir að fólk er annað hvort alveg hætt þáttöku á vinnumarkaði eða vinnur þar enn að hluta. Íslenski háskólinn U3A sem er ætlaður fólki á þessu æviskeiði var stofnaður fyrir tveimur árum. Formaður stjórnar hans er Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir skipulagsfræðingur.

Spennandi verkefni á þriðja æviskeiðinu

Háskóli þriðja æviskeiðsins er alþjóðleg hreyfing, sem hefur síðustu tvö árin einnig verið starfrækt hér á Íslandi, en fyrsti skólinn var stofnaður í Frakklandi fyrir 40 árum. Hér er skólinn rekinn sem frjáls félagasamtök og byggir starfsemi sína á sjálfboðaliðavinnu. Félagið hér hefur tekið höndum saman við félög á Spáni og í Póllandi um tveggja ára verkefni sem miðar að því að kanna og rannsaka hverig best má vinna að undibúningi þess að menn séu virkir og ánægðir á þriðja æviskeiðinu eins og það hefur verið kallað.  Ætlunin er að sá undirbúningur hefjist þegar fólk er komið á sextugsaldur. Það er fyrirtækið Evris ehf.  sem heldur utanum verkefnið og sótti um styrk til þess.  Evrópusambandið samþykkti svo  nýlega að veita því  200.000 evru styrk, en það svarar til um 30 milljóna króna.

Æviskeiðin þrjú

Skilgreiningin á æviskeiðunum sem er notuð hjá Háskóla þriðja æviskeiðsins, er þannig að fyrsta æviskeiðið er bernskan og unglingsárin, annað æviskeiðið er starfsárin og barnauppeldið og það þriðja nær yfir fólk sem er ýmist hætt fullu starfi eða vinnur að hluta.

Félagatalan hefur nær tvöfaldast

Sem dæmi um verkefni sem Háskóli þriðja æviskeiðsins á Íslandi sinnti í fyrra, eru fyrirlestrar og fræðsluheimsóknir meðal annars í Stofnun Árna Magnússonar og Kvikmyndasjóð Íslands. Eftir áramót voru fyrirlestrar um Baska og Baskaland, fyrirlestrar um merka Íslendinga og margt fleira. Dagskráin fyrir veturinn liggur ekki fyrir, en fyrirhugað er að skiptast á heimsóknum við fulltrúa U3A í Uppsölum í Svíþjóð á næsta ári og halda námskeið í sænsku í tengslum við það. Vetrarstarfið hefst með félagsfundi 30.september. Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir segir að þegar félagið var stofnað fyrir tveimur árum hafi stofnfélagar verið 18, en núna séu þeir orðnir 96.   Þannig að háskóla þriðja æviskeiðsins er að vaxa fiskur um hrygg, en hann hefur aðsetur í Hæðargarði 31, sem er félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar. Á heimasíðu félagsins kemur fram að yngsti félaginn er 54 ára, sá elsti 83ja ára, en meðalaldur félagsmanna er 68 ár. Um 80% félagsmanna eru konur. Það er hægt að gerast félagi í U3A, en árgjaldið er 1500 krónur.  Félagið er öllum opið og fyrirlestrarnir einnig, þannig að það skiptir engu máli hvort menn hafa háskólapróf eða ekki.

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 18, 2014 15:14