Haukur Ingibergsson nýr formaður Landssambands eldri borgara

Haukur J. Ingibergsson hefur tekið við formennskunni í Landssambandi eldri borgara, af Jónu Valgerði Kristjánsdóttur. Tímabili Jónu Valgerðar var lokið, en 4 ár eru hármarkstími sem fólk getur setið samfellt í stjórn sambandsins. Formannskjörið fór fram á landsfundi sambandsins fyrir skömmu.

Niðurstaða kjarasamninga mikilvægust

Haukur segir niðurstöðu kjarasamninga mikilvægasta málið hjá Landssambandinu þessa dagana, annars vegar að samið verði þannig að forðast megi verkföll í margvíslegri þjónustu sem er eldri borgurum mikilvæg, svo sem í heilbrigðiskerfinu, en hins vegar að bætur almannatrygginga hækki í takt við hækkun lægstu launa. „En sterkar kröfur hafa komið fram um að lægstu laun hækki í 300 þúsund krónur á mánuði á næstu þremur árum. Það má heldur ekki gleyma því að eldri borgarar hafa ekki notið þess launaskriðs sem hefur orðið á vinnumarkaði á síðustu árum og hefur leitt til gliðnunar á milli kjara launþega og lífeyrisþega.“ Segir hann.

Eldri borgarar við betri heilsu og skuldlausir

Mikil fjölgun aldraðra á næstu áratugum vex Hauki ekki í augum og hann telur að þar vinni ýmislegt með okkur, svo sem eins og að heilsufar á efri árum ætti að ýmsum ástæðum að fara batnandi. „Sömuleiðis ætti efnahagur eldri borgara að styrkjast vegna þess trausta lífeyrissjóðakerfis sem við höfum byggt upp og aukinnar íbúðaeignar og skuldleysis eldra fólks“, segir hann.

Jaðrar við tímaskekkju að menn láti af störfum sjötugir

„Sennilega ættum við að fara að taka fyrstu skrefin í að fólk geti verið lengur á vinnumarkaði ef það vill og getur“, heldur hann áfram „og frestað töku lífeyris og bóta almannatrygginga, því þjóðfélaginu veitir ekki af vinnu eldri borgara. Það jaðrar við tímaskekkju að þeir sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum verði lögum samkvæmt að láta af störfum sjötugir. Og það má ekki gleyma því að hátt í 95% eldri borgara 67 ára og eldri býr á eigin heimili og hagar sínu heimilishald að eigin vilja og geðþótta ekki síður en þeir sem yngri eru.“

Félagar í landssambandinu yfir 21.000

Yfir 100 manns sóttu landsfund sambandsins sem var haldinn í Kópavogi í byrjun mánaðarins, en 55 félög eldri borgara um land allt, með samtals 21.500 félagsmenn eiga aðild að landssambandinu. Landsfundum LEB er haldinn annað hvert ár.

Ritstjórn maí 27, 2015 11:32