Heimatilbúnir sérfræðingar

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Við eigum marga sérfræðinga við Íslendingar sem kemur sér auðvitað vel. Það er sama hvort við þurfum pípara, bifvélavirkja, tannlækna eða fjármálasérfræðinga, sem hjálpa þeim að ávaxta fé sitt sem eiga of mikið af því, dýralækna, rekstrarráðgjafa eða tæknisérfræðinga af ýmsum toga jafnt fyrir okkur almenning eða fyriræki  og stofnanir af öllum stærðum og gerðum.

Þó þörfin fyrir sérfræðinga sé almennt mikil þá virðist vera meira framboð af einni tegund þeirra en eftirspurnin segir til um. Þetta eru sjálfskipaðir efnahagssérfræðingar eða hagfræðingar sem vita allt um hvað sé þjóðinni fyrir bestu. Þessir sérfræðingar vita allt um hagstjórn eins og kemur til að mynda alltaf skýrt fram þegar þeir spretta fram í hjörðum þegar teknar eru ákvarðanir um stýrivexti Seðlabankans. Þá er þessi sérstaki hópur sérfræðinga alveg með á hreinu hvort ákvörðun bankans hverju sinni er rétt ekki. Þetta er reyndar ekkert bundið við stýrivextina því sérfræðinga-hjarðirnar eru oftast mjög vel að sér í öllum krókum og kimum efnahagsmálanna. Það er ekki laust við að maður fyllist minnimáttarkennd vegna þess hve lítið vit maður hefur á þessum málum í samanburði við þá sem eru viljugastir til að tjá sig.

Hvað ætli skýri það hve vel við erum búin af sjálfskipuðum og heimatilbúnum efnahagssérfræðingum eins og raun ber vitni? Að hluta til geta þetta verið leifar frá þeim tíma þegar það var regla að uppgjafa stjórnmálamenn voru skipaðir í æðstu stöður í efnahagslífinu og annars staðar, til að mynda í bankastjórastóla, þegar þeir voru búnir að fá nóg af stjórnmálunum, eða þegar við vorum búin að fá nóg af þeim. Sumir þessara manna voru ekki beint sérfræðingar á því sviði sem þeir höfðu troðið sér inn á eins og fjölmörg dæmi sanna, bæði gömul og ný. –  Það þarf ekki að leita lengra aftur en til bankahrunsins fyrir rúmlega átta árum til að finna eitt mest sláandi og dýrkeyptasta dæmið í þessa veruna. – Þetta er reyndar ekkert bundið við æðstu stöður. Ráðningar ráðamanna í hin ýmsu störf, nefndir og fleira í kerfinu, allt niður í tímabundnar nefndir, taka oft meira mið af flokkatengslum og kunningskap en hæfni og sérfræðiþekkingu. Kannski hefur þetta fyrirkomulag á ráðningum í æðstu jafnt sem minna merkilegar stöður leitt til þess að við treystum því ekki að þeir sem eiga að heita sérfræðingar á einhverju sviði séu það í raun. Við getum ekki alltaf verið viss og þess vegna telja ýmsir hugsanlega að þeir geti alveg eins þóst vera sérfræðingar eins og hverjir aðrir.

Það verður að viðurkennast að þetta hefur verið að breytast. Ekki mikið, en samt svolítið. Það er farið að bera meira á því en áður að fólk sé ráðið í sum störf á grundvelli hæfni. En þá kemur því miður oft eitthvað bakslag. Nýjasta bakslagið er splunkunýtt. Fjármálaráðherra skipaði starfshóp síðastliðið vor í kjölfar uppljóstrana Panamaskjalanna á umfangi skattsvika og undanskota á aflandssvæðum. Starfshópurinn virðist hafa unnið flotta skýrslu sem bendir eindregið til þess að þar hafi alvöru sérfræðingar verið að störfum. En hvað gerðist? Fjármálaráðherrann hélt skýrslunni leyndri í heila þrjá mánuði. Og, eins og gamaldags stjórnmálamanna er siður, þá svarar hann með þjósti og sakar gagnrýnendur bara um að vera í pólitík. En ekki hvað? Ég hélt að þetta væri pólitík.

Viðbrögð fjármálaráðherrans eru auðvitað þau sömu og hafa alltaf komið upp á yfirborðið þegar eitthvað óþægilegt kemur fram. Svona viðbrögð gera lítið úr góðri vinnu sérfræðinga. Það er slæmt því það kitlar heimatilbúnu sérfræðingana. Ástæðan fyrir því hve við eigum marga slíka er líklega bara heimatilbúin þegar allt kemur til alls.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson janúar 9, 2017 11:05