Hin dýrmæta stund

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Eftir því sem líður á ævina þá breytist margt í fjölskyldulífinu. Börnin fara að heiman, eitt af öðru og loks kemur að því að einhver úr hópi hinna öldruðu þarf að fara á sjúkrahús. Sumir eiga þaðan ekki afturkvæmt á heimili sitt. Þá hefst biðtími sem er erfiður. Beðið er á sjúkradeild eftir vist á hjúkrunarheimili sem kannski fæst loksins. Þessum breytingum þurfa þeir sem yngri eru að mæta með yfirveguðum hætti.

Það vill brenna við að heimsóknum til hins aldraða, sem ekki er lengur á heimili sínu, fækki. Fólki finnst það ekki lengur þurfa að koma í heimsókn á sama hátt og áður, hinn aldraði fái alla þá þjónustu sem hann þarf. Sumum finnst ópersónulegt að heimsækja aldraðan ættingja í hinu nýja umhverfi. Enn öðrum finnst erfitt að horfast í augu við hinar breyttu aðstæður.

En þó fólk hafi hreint á rúmum, fái mat og meðul þá þarf það eigi að síður að hitta sína nánustu. Það er veigamikill hluti af lífsgæðum manneskjunnar.

Auðvitað er ekki hægt að alhæfa neitt í þessu sambandi. Sumir eru mjög ræktarlegir við þá sem komnir eru út úr stórfjölskyldulífinu með því að dvelja á sjúkrahúsi eða hjúkrunarheimili til langframa. En þá vill það gerast að enginn kemur kannski í viku, svo koma fjórir eða fimm einn daginn. Það er heldur ekki mjög sniðugt. Sá sem er aldraður og veikur á þá bágt með að tala við gesti sína þannig að hann njóti þess.

Aðstandendur geta gert bæði hinum veika á sjúkrahúsinu og sjálfum sér þetta mun léttara með því að skipuleggja heimsóknir eftir föngum. Þá veit hver og einn hvenær hann getur létt lund þess aldraða á sjúkrahúsinu með heimsókn sinni og þannig færi hinn aldraði sjúklingur heimsóknir fleiri daga vikunnar.

Þetta krefst auðvitað samráðs og samvinnu en í flestum fjölskyldum er hægt að koma þessu við.

Og því er við að bæta að samkomulagið er ekki beinlínis „meitlað í stein“, því er hægt að breyta ef aðstæður krefjast og skipta á dögum ef nauðsynlegt er.

En eitt er víst; aldrað fólk þarf að hitta aðstandendur sína ekki síður þó viðkomandi sé kominn á sjúkrahús eða hjúkrunarheimili. Hann ber í brjósti sömu tilfinningar til þeirra og áður. Og þó heimili hans sé sem slíkt liðið undir lok er hann sjálfur til og það er fyrir mestu. Mikilvægt er að gleyma ekki þeim sem þurfa að vera á sjúkrastofnunum til lengri tíma.

Heimsóknir þurfa heldur ekki endilega að vera langar. Bara það að sjá sína í skamma stund getur gert dapran huga glaðan. Hver glöð stund er þýðingarmikil, líka þó fólk sé farið að gleyma. Þegar allt kemur til alls er lífið ekkert nema samansafn af stundum. Því fleiri sem eru góðar – því hlýrra og gleðiríkara er lífið.

 

gudrunsg@gmail.com

Guðrún Guðlaugsdóttir maí 4, 2015 09:56