Hjálmar Jónsson fyrrverandi dómkirkjuprestur

„Lífið er bæði  gott og ljúft,“ sagði séra Hjálmar Jónsson þegar Lifðu núna hringdi í hann til að forvitnast um hvað hann væri að gera. „Við vorum að koma úr golfi nokkrir félagar,“ segir hann og bætir við að hann sé nú starfandi sóknarprestur á Sauðárkróki. „Ég var beðinn um að gegna hérna á meðan heimapresturinn er í námsleyfi en tíma mínum hér lýkur í lok maí. Mér fannst ég ekki geta neitað því að þjóna hér enda þekki ég mig vel hér um slóðir og var prestur hér í fimmtán ár.“

Hjálmar á fjölbreytta starfsævi að baki. Hann lauk guðfræðisprófi frá HÍ 1976 og framhaldsnámi frá St. Paul í Bandaríkjunum 1993. Hann var sóknarprestur í Bólstaðarhlíðarprestakalli 1976–1980. Sóknarprestur í Sauðárkróksprestakalli árið 1980 til ársins 1995 er hann var kjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandi vestara. Á þingi sat hann svo í sex ár en tók þá við embætti dómkirkjuprests. Hann lét af störfum í Dómkirkjunni í lok maí í fyrra. Hjálmar er sennilega einhver allra vinsælasti prestur landsins. Fjölmargir leita til hans þegar kemur að stóru stundunum í lífinu hvort sem um er að ræða að skíra barn, gifta eða jarða.

Hjálmar segir að það séu miklar annir fram undan hjá honum. Messur og fermingar um páskana og jarðarfarir í vikunni eftir páska. „Svo eru nokkrar giftingar sem ég á eftir að ljúka í sumar. Í haust fer ég svo á vegum ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar til Rómar og þaðan í siglingu um Miðjarðarhafið, Eyjahafið og Adríahafið. Að þeirri ferð lokinni hef ég tekið að mér fararstjórn í siglingu um Karíbahafið.“

Þegar hann er spurður hvort hann sé hættur að þjóna sem prestur fer hann að hlæja og segir að hann hafi verið búinn að lofa konunni sinni að hætta í vor. „Prestsstarfið er hins vegar ákveðinn lífsstíll. Ég hef alltaf kunnað vel við þetta starf. Það er ljúft og gott að þjóna fólki, vera með því jafnt í gleði sem sorg. Mér finnst líka alltaf mjög erfitt að neita fólki um þjónustu meðan ég er enn í fullu fjöri.“

Hjálmar á annað áhugamál sem er golfið og segist ætla að stunda það hvenær sem tækifæri gefast sumar. Það finnst honum góð leið til að dreifa huganum og hvíla sig frá daglegu amstri.

Ritstjórn mars 28, 2018 11:07