Hlægilega ódýrt að lifa á Kanarí

„Við förum til að slaka á, láta okkur líða vel og lifa ódýrara lífi. Þetta er sparnaður“, segja þau Ástþór Óskarsson  og Sigrún Pétursdóttir sem komu heim úr þriðju Kanaríferð ársins fyrir viku.  Þau hjónin hafa farið á hverju ári til Kanaríeyja síðan 1996, eða í 20 ár. Á þessu ári hafa þau farið þrisvar. Fyrstu ferðina fóru þau í febrúar og voru í 5 vikur. Þau fóru í þriggja vikna ferð í sumar og eru nýkomin úr þriðju ferðinni, en þá dvöldu þau í 6 vikur á ensku ströndinni á Grand Kanarí.  Þó þar sé líflegt mannlíf og skemmtanalíf, truflar það ekki Sigrúnu og Ástþór. „Við erum með íbúð, eldum mikið sjálf heima og förum ekki mikið út. Í fyrstu vorum við svolítið í trallinu, en fengum nóg af því. Við förum yfirleitt einu sinni í viku út að borða“.

Alltaf á sama hótelinu

Ástþór ásamt Harry sem auglýsir sérstakt verð fyrir Íslendinga í versluninni sinni

Ástþór ásamt Harry sem auglýsir sérstakt verð fyrir Íslendinga í versluninni sinni

Ástþór og Sigrún eru alltaf á sama hótelinu á Kanarí.  Hotel Montemar á ensku ströndinni.  Þau segjast hafa kynnst heimamönnum í öllum þessum ferðum.“Við erum búin að vera þarna svo oft og erum stundum boðin í mat til þeirra, það er bara gaman að því“.  Þau kynntust Indverja í versluninni Foto Harry, sem þau segja að sé mikill Íslandsvinur. „Við buðum honum til Íslands í viku og hann var alveg í skýjunum. Við fórum með hann að Jökulsárlóni og hann var mjög hrifinn, enda hafði hann ekki séð ís áður, nema í glasi.  Við kynntumst einnig stúlku á hótelinu sem bauð okkur í brúðkaupið sitt. Við mættum þar og höldum alltaf sambandi við hana, þó hún sé farin að vinna á öðru hóteli“.

Liggja í sólinni eða skoða sig um

Þau hafa farið til Kanaríeyja með mörgum ferðaskrifstofum. Þau hafa það yfirleitt þannig að þau kaupa flugið, en borga hótelið sjálf. Ástþór segist borga um það bil 189 þúsund krónur fyrir flug fyrir þau bæði. „Svo borgum við 55 evrur á sólarhring fyrir gistinguna“, segir hann.  Þau leggja mest uppúr því að slaka á í ferðunum og eru ekki með neitt sérstakt prógramm. „Það er bannað að gera nokkuð, við erum bara að slaka á og spilum það af fingrum fram hvað við gerum.  Við liggjum í sólinni og ef okkur langar að skoða eitthvað sérstakt, tökum við bílaleigubíl og keyrum sjálf“. Ástþór segir yndislegt að vera á Kanarí og þau reyni að vera þar eins mikið og þau geti.  Þau vilji forðast að beinbrjóta sig í hálkunni hérna heima.

Miklu ódýrara að lifa

Það er ekki amalegt að baða sig í sólinni á meðan mesta skammdegið ríkir á Íslandi

Það er ekki amalegt að baða sig í sólinni á meðan mesta skammdegið ríkir á Íslandi. Ljósmynd: Birgir Þórðarson

Sigrún segir að veðrið á Kanarí skipti máli. „Fólki líður betur í skrokknum og maður er hressari á morgnana en hér heima í skammdeginu“, segir hún, „menn smeygja sér í stuttbuxurnar og ekkert vesen“.  Ástþór segist geta hugsað sér að flytja til Kanaríeyja og fá ellilífeyrinn sendan þangað, en Sigrún getur ekki hugsað sér það. „Það er gott að brjóta þetta upp og vera stundum heima og stundum þarna suðurfrá“.  Þau segja að það sé miklu ódýrara að lifa á Kanarí en hér heima. „Það er hlægilega ódýrt að lifa þarna, ef maður verslar ekki í búðum fyrir túrista, ef maður fer upp í spænska hverfið og kaupir í matinn“, segja þau.

Hitta mikið sama fólkið

Sigrún og Ástþór ásamt Auði Sæmundsdóttur fararstjóra, dóttur sinni Guðrúnu lengst til hægri, en vinstra megin eru börn hennar, Ástþór og Sigrún Eva

Sigrún og Ástþór ásamt Auði Sæmundsdóttur fararstjóra, dóttur sinni Guðrúnu lengst til hægri, en vinstra megin eru börn hennar, Ástþór og Sigrún Eva

Þau eru búin að heimsækja allar eyjarnar í Kanaríeyjaklasanum nema tvær. Þær séu mismunandi.  Þau hafi til dæmis farið til Forte Ventura þrisvar eða fjórum sinnum, en þar hafi lífið verið rólegra en á hinum eyjunum.  Þau hafa leigt sér bíl og ekið umhverfis hverja eyju.  Þau hitta gjarnan sama fólkið á Kanarí. „Við höldum okkur ekki endilega með Íslendingum, en við sjáum mjög mikið sama fólkið sem fer ár eftir ár á sama tíma. Sömu Íslendingana, Bretana, Svíana, Norðmennina og Hollendingana. Það eru bara 42 íbúðir á hótelinu okkar. Það verður mikið persónulegra, þar er alltaf sama starfsfólkið sem vill allt fyrir okkur gera“.

Ekkert jólastress

Sigrún og Ástþór sem fóru bæði á eftirlaun fyrir nokkrum árum eiga 3 börn, 6 barnabörn og eitt langömmu- og afabarn.  Þau segja að börnin séu hæst ánægð með að þau hverfi á vit sólarinnar á Kanarí með reglulegu millibili. „Einu sinni tókum við alla fjölskylduna til Kanarí og vorum þar um jól og áramót. Við vorum 13 og tókum hálfa hæð á hótelinu“, segir Ástþór.  Þau elduðu jólamatinn og tóku með sér malt og appelsín til að drekka með. „Við höfum verið hér tvisvar um jól og áramót. Það eru líka jól og áramót hér og ekkert jólastress“, segja þau og hafa þegar pantað sér Kanaríferð í lok febrúar á næsta ári.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 15, 2016 08:20