Hóf rithöfundaferilinn um sjötugt

Það var í kringum 1950 að lítill áhugasamur drengur sat á skólabekk á Snæfellsnesinu. Uppáhaldsfögin hans voru landafræði og saga. Og 65 árum síðar hefur hann gert það að sínu aðalstarfi að skrifa ferðabækur sem byggast á landafræði og sögu. Þetta er Reynir Ingibjartsson en bók hans, 25 gönguleiðir á Þingvallasvæðinu, er nýkomin út. „Þannig tengist ungur og gamall í gegnum landið og söguna“ segir Reynir.

Nýja bókin hans Reynis

Nýja bókin hans Reynis

Fór í Samvinnuskólann

Reynir fæddist í Reykjavík en ólst upp á Snæfellsnesi. Hann gekk í Samvinnuskólann á Bifröst og starfaði svo hér og þar. Var til dæmis starfsmaður Landssambands samvinnustarfsmanna í 10 ár. Síðar starfaði hann hjá Búseta og Búmönnum og var í forsvari fyrir Aðstandendafélag aldraðra.

Fékk aukakennslu í sænsku

Árið 1974 vildi Reynir læra sænsku og dreif sig á sænskunámskeið í Norður-Svíþjóð. Þar lágu saman leiðir hans og finnskrar stúlku frá Norður Finnlandi, Ritvu Jouhki. Þar sem Reynir talaði ekki finnsku og hún ekki íslensku, neyddust þau til að tala saman á sænsku. „Menn hentu gaman að þessu og sögðu að ég hefði verið svo lélegur í sænskunni að ég hefði þurft aukakennslu“, segir hann.

Ritva ásamt einu barnabarna þeirra Reynis

Ritva ásamt einu barnabarna þeirra Reynis

Pakkaði niður dótinu og fór til Íslands

Ritva fór heim til Norður Finnlands, pakkaði dótinu sínu niður í ferðatösku, kvaddi og hélt til Íslands stuttu síðar. Hér hefur hún verið síðan og þau Reynir eiga þrjú börn og fimm barnabörn. Reynir var rétt tæplega sjötugur þegar hann hóf feril sinn sem höfundur ferðabóka. Hann segist ekki endilega hafa ætlað sér að skrifa bækur en eitt hafi leitt af öðru. Hann hafði gefið út landakort af Snæfellsnesinu sem urðu fjögur kort í pakka. „Þetta var skemmtilegt viðfangsefni“, segir Reynir „og ég fór að gefa út fleiri kort. Í framhaldi af því var leitað til mín um að skrifa texta í gönguleiðabækur.

Hefur skrifað sex gönguleiðabækur

Reynir játti þeirri beiðni. „Síðan hef ég ekki bara skrifað texta ég hef valið allar leiðir og tekið nánast allar myndir“ segir hann, en það var ekki ætlunin í upphafi. Gönguleiðabækurnar eru nú orðnar sex, en sú fyrsta kom út þegar Reynir átti eftir ár í sjötugt. Sjötta bókin 25 gönguleiðir á Þingvallasvæðinu er nýkomin út, en þar hefur hann valið leiðir, sem menn þekkja ekki endilega, enda segir hann að þekktustu staðirnir séu nú orðnir yfirfullir af ferðamönnum.

Flestir láta sér nægja að skoða þekktustu staðina á Þingvöllum

Flestir láta sér nægja að skoða þekktustu staðina á Þingvöllum

Ganga um aftökustaði á Þingvöllum

Allir þekkja Almannagjá, vellina, þingvallabæinn, Öxará, Öxarárfoss og Drekkingarhyl, en það eru ekki allir sem þekkja staði eins og Gálgaklett, Höggstokkseyri og Brennugjá, en ein af gönguleiðum Reynis er milli þessara aftökustaða. „ Þarna var fólki drekkt, það hengt, hálshöggvið og brennt“, segir Reynir. „Þetta er hin hliðin á sögu Þingvalla sem er ekki glæsileg“. Hann minnir á að Þingvallavatn er einstakt á heimsvísu og vatnabúskapurinn á svæðinu stórmerkilegur.

Gengið í hringi

Reynir hefur sjálfur gengið allar leiðirnar sem hann lýsir og segir gönguferðirnar hollar og góðar. Hann segist reyna að búa til gönguhring í ferðunum, frekar en að fara sömu leiðir fram og tilbaka. Að jafnaði eru gönguleiðirnar í bókinni 3-6 kílómetrar en sumar lengri en aðrar styttri. Hann segir að nýja bókin sé kjörin fyrir þá sem vilja upplifa Þingvallasvæðið á nýjan hátt.

Ritstjórn júní 26, 2015 13:26