Hugmyndir að bókum og spilum handa barnabörnunum

Afar og ömmur geta gegnt mikilvægu hlutverki í að lesa fyrir barnabörnin eða segja þeim sögur –  og hugmyndir um lesefni eru oft vel þegnar. Lifðu núna leitaði álits nokkurra kennara á því hvaða bækur væru vinsælar meðal barnanna.

Þar er fyrst að nefna klassískar bækur eins og Grimms ævintýri, Ævintýri HC.Andersen, Dæmisögur Esops eða bækur Astrid Lindgren. Þá má heldur ekki gleyma bókum Guðrúnar Helgadóttur, sem hafa lengi verið vinsælar meðal íslenskra barna.

En hvaða bækur skyldu henta fyrir allra yngstu börnin? Þar koma bækur sterkar inn sem gefa frá sér hljóð, eru með snertifleti og ef til vill flipa sem þeim litlu finnst gaman að skoða. Til dæmis Dýrin í sveitinni, Ég vil skoða, Knús og Mjá mjá, Fyrstu fimmtíu orðin og bækurnar um Depil

Fyrir börn á aldrinum 2-6 ára, mæla kennararnir til dæmis með fallegri þýddri barnabók um Bangsa litla í sumarsól, Arngrím apaskott og skuggana, Enginn sá hundinn sem er í bundnu máli og Freyju og Fróða. Ævintýrið um Bangsímon í þýðingu Guðmundar Andra hefur verið endurprentað og stendur alltaf fyrir sínu.

Fyrir börn á aldrinum 7- 12 ára. Sigrún Eldjárn, Gunnar Helgason, og Þorgrímur þráinsson eru öll með nýjar bækur fyrir þessi jól, en þetta eru höfundar sem eru vinsælir hjá börnunum. Fyrir fróðleiksfús börn má svo nefna spennandi bækur eins og Stjörnuskoðun fyrir fjölskylduna,Íslandsbók barnanna, Viltu vita meira, Væri ég fuglinn frjáls og Skynjun og skynvillur.

Fyrir unglinginn þá eru athyglisverðir ungir höfundar íslenskir með bækur fyrir þessi jól,  Ragnheiður Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Hildur Knútsdóttir. En rúsínan í pylsuendanum er örugglega bókin Harry Potter og bölvun barnsins.

Meðal spila sem börn geta spilað, nefna kennararnir Scrabble, Kaleidos, Tvenna, Míkadó, Dixit, Ticket to Ride, Pandemic og Codenames. Verslunin Spilavinir selur mikið úrval spila og starfsmenn þar vita allt um þau og geta útskýrt fyrir öfum og ömmum hvað hentar.

Ritstjórn desember 21, 2016 14:33