Hún þarna frúin frá Akranesi

Það er áhugavert fyrir alla áhugamenn um stjórnmál að lesa bókina Frú ráðherra – Frásagnir kvenna á ráðherrastóli, eftir þær Eddu Jónsdóttur og Sigrúnu Stefánsdóttur. Ráðherrarnir  eiga það allir sammerkt að þeir víluðu ekki fyrir sér að takast á við erfið verkefni í störfum sínum, oft án mikils stuðnings frá körlunum sem lengi voru allsráðandi í öllum ríkisstjórnum. Þó konur fengju kosningarétt árið 1915, var það ekki fyrr en árið 1970 sem fyrsta konan varð ráðherra hér á landi. Eftir það var lengi talið gott að ein kona ætti sæti í hverri ríkisstjórn. Frá upphafi hafa 21 kona orðið ráðherrar á Íslandi.

Í bókinni er rætt við 20 konur sem hafa gegnt störfum ráðherra og er bókin tileinkuð minningu fyrstu konunnar sem gegndi ráðherraembætti hér, en það var Auður Auðuns sem var dóms- og kirkjumálaráðherra frá 1970-1971. Hún féll frá árið 1999. Ragnhildur Helgadóttir var önnur konan sem varð ráðherra hér á landi, en hún gegndi stöðu menntamálaráðherra og síðar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á árunum frá 1983-1987. Hún segir í bókinni:

Ég var ekkert hikandi yfir því að verða ráðherra. Ég var búin að vera lengi í framvarðarsveitinni. Auður hafði verið góður ráðherra og mikil fyrirmynd okkar kvenna. Mér fannst að ég ætti ekki að standa neitt verr að vígi en aðrir sem voru með mér á þingi. Það að tvær fyrstu konunr sem verða ráðherrar á Íslandi komi úr röðum Sjálfstæðisflokksins finnst mér sanna að flokkurinn sé trúr þeirri hugsjón að það sé einstaklingurinn en ekki stétt eða kyn sem skiptir máli.

Mikilvægi fyrirmynda fyrir konur í stjórnmálum kemur skýrt fram í bókinni og það er misjafnt hvaða fyrirmyndir konurnar sem rætt er við,hafa haft. Þannig lýsir fyrrverandi ráðherrann Svandís Svavarsdóttir föður sínum Svavari Gestssyni sem sinni fyrirmynd. Sigríður Anna Þórðardóttir fann sínar fyrirmyndir í konunum á Siglufirði sem tóku virkan þátt í bæði atvinnulífi og pólitík og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi á margan hátt verið hennar fyrirmynd. Sjálf segir Ingibjörg Sólrún að Davíð Oddsson hafi mótað sig sem leiðtoga:

Ég var í stöðugum slag við hann í sex ár og oft í miklu návígi í borgarráði […] Hugmyndir hans og aðferðir í stjórnmálum voru öndverðar öllu því sem mér fannst rétt. […] En það var örgun að berjast við Davíð, enda sterkasti andstæðingur sem maður gat slegist við. Þetta var mikill skóli fyrir mig og ég hef búið að því alla tíð.

Það var ekki tekið út með sældinni að hasla sér völl í pólitíkinni og mörgum þótti hreint ekki við hæfi að konur, jafnvel með börn gerðu það. Ingibjörg Pálmadóttir bauð sig fram til Alþingis árið 1979 og fór á sinn fyrsta framboðsfund með ræðu sem hún hafði samið í rútunni á leiðinni á fundinn. Þar atti hún kappi við gamalreynda þingmenn og í bókinni lýsir hún viðtökunum sem hún fékk:

Ég man að einn þingmaðurinn kallaði mig ekki mínu nafni heldur stúlkuna í rauðu peysunni og annar stóð upp og sagði:“Hún þarna frúin frá Akranesi sem kom með heimastílinn frá húsbóndanum“. Það gat ekki annað verið en karlinn hefði skrifað fyrir mig ræðuna af því ég var að tala um sjávaratveg. Þetta kveikti í mér löngun til að vera með og láta til mín taka.

Konum fór ekki að fjölga á Alþingi fyrir alvöru fyrr en með tilkomu Kvennalistans árið 1983 og það er ekki fyrr en undir aldamótin 2000 sem kvenráðherrum fjölgar. Það skiptir máli að konurnar séu fleiri en ein í ríkisstjórn og þingflokki eins og Rannveig Guðmundsdóttir bendir á í bókinni:

Oft upplifði ég Alþingi sem harðan heim, jafnvel illvígan, þar sem menn gátu verið óprútnir. Sagt var að umræður breyttust þegar konur væru orðnar þrjátíu prósent af hópi og það gerðist þegar þriðja konan kom inn í þingflokkinn minn. Við vorum allt í einu orðnar þrjár af tíu. Og þetta var alveg rétt – umræðan breyttist. Sama gerðist þegar konum fjölgaði í þinginu.

Eftir hrun fjölgar konum verulega á Alþingi og í fyrsta sinn urðu jafn margar konur og karlar ráðherrar í ríkisstjórn árið 2009, í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur, sem jafnframt varð forsætisráðherra fyrst kvenna á Íslandi. Konurnar ræða í bókinni um þá gagnrýni sem ráðherrar verða fyrir í fjölmiðlum og áhrif hennar á fjölskylduna einkum börnin. Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra telur að þeir sem taki að sér mikilvæg embætti í almannaþágu verði að geta tekið gagnrýni, jafnvel þótt óvægin sé. En hún tekur undir að samfélagsmiðlar hafi breytt umræðunni og fólk noti athugasemdakerfi á netmiðlum til að níðast á fólki með óþverra og uppspuna sem ætti ekki að sjást í fjölmiðlum. Stjórnmálamenn séu berskjaldaðir fyrir þessu en verði oft einfaldlega að bíta á jaxlinn og láta þetta yfir sig ganga.

Ég sem forsætisráðherra varð mikið fyrir þessu og þótt maður sé kominn með þykkan skráp eftir öll þessi ár í stjórnmálum er þetta auðvitað oft sárt vegna fjölskyldunnar, ekki síst vegna barna og barnabarna sem berja þetta augum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist í bókinni hafa hætt í stjórnmálum fyrst og fremst vegna fjölskyldunnar.

 

Ritstjórn desember 14, 2015 10:18