Hundrað ára með myndlistarsýningu

Hefur þér einhvern tíma dottið í hug að þú sért orðinn of gamall eða gömul til að taka upp ný áhugamál, læra eitthvað nýtt eða bæta nokkrum köflum við minnið? Má ekki kynna þig fyrir Friedu Lefeber? Lefeber er 100 ára og heldur uppá afmælið með því að halda sýningu á bæði landslags myndum og portrett myndum. Þetta er fyrsta einkasýning þessa aldna myndlistarmanns.

Frieda Lefeber lifir lífinu lifandi

Frieda Lefeber lifir lífinu lifandi

Heldur mér ungri

Þetta er mikið þrekvirki fyrir móðurina, ömmuna, hjúkkuna sem er komin á eftirlaun og konu sem lifði af helför gyðinga. Hún hóf myndlistarnám árið 1991, þegar hún var 76 ára og fékk viðurkenningu fyrir náms sitt í Listaskóla Pennsylvania í Bandaríkjunum þegar hún var 83 ára. „Þetta heldur mér ungri“ segir hún, en hún hefur verið önnum kafin í myndlistinni „Ég lít ekki upp“. Og hún er auðvitað farin að velta fyrir sér hvaða verkefni hún eigi að snúa sér að næst. Hana langar að endurskrifa ævisögu sína, sem hún gaf út árið 2003. Í ljósi þess hversu mikið hún hefur haft fyrir stafni á tíræðisaldrinum, er nokkuð ljóst að bókin er algerlega úrelt.

Byrjaði að mála á áttræðisaldri

Hana vantar ekki efnið. Hún er gyðingur sem fæddist í Póllandi í mars 1915 mitt í fyrri heimsstyrjöldinni. Þaðan flúði fjölskyldan til Þýskalands og foreldrar hennar fluttu svo þaðan til Palestínu. Hún varð eftir í Berlín og starfaði sem hjúkrunarkona á sjúkrahúsi gyðinga í borginni. En staðan var ótrygg og róstursamt í Berlín þannig að hún ákvað að freista þess að flytja til Bandaríkjanna og tókst það. Þangað kom hún í mars 1939 með fjóra dollara í vasanum og nánast mállaus. En hún var góður nemandi og varð á endanum hjúkrunarkona í Ameríku. Þar annaðist hún ýmsa þekkta einstaklinga svo sem málarann Ömmu Moses. En það var ekki fyrr en hún var komin yfir sjötugt sem hún fékk sjálf áhuga á að mála.

Langar ekkert að fá Alzheimer

„Ég vissi ekki að ég hefði hæfileika á þessu sviði“, segir hún.“ Mig langaði aldrei að mála nema þegar dóttir mín var lítil, þá málaði ég mynd af henni sem mörgum þótti góð“. Einn af fyrstu myndlistarkennurum hennar var Pat Nugent, sem vann við Rosemont listaskólann. Hún minnist þess þegar Frieda byrjaði þar. „Hana langaði svo mikið til að læra á mála“ rifjar hún upp“ og spurði mig í þaula út í það hvernig hún ætti að bera sig að. Hún spurði á fimm mínútna fresti“ Þá hugsaði Pat með sér. „Annað hvort verð ég að hafa gaman af þessu, eða ég verð alveg snar. Og ég ákvað að hafa gaman“. Eftir að hafa tekið tíma í Rosemont hélt Frieda náminu áfram. „Hvernig ferðu að þessu?“ spurði Pat hana. „Ég myndi ekki geta þetta“. Og hún svaraði. „Mig langar ekkert að fá Alzheimer“. Pat segir að áhugi hennar á öllu milli himins og jarðar sé einstakur.

Landslagsmálun í uppáhaldi

Frieda ætlaði að taka prófgráðu, en ekki varð af því vegna þess að hún átti það til að sofna í listasögutímunum, þar sem hún sat á fremsta bekk. „Á sýningunni á fjórða ári sýndi ég 20 myndir og seldi 14. Það borgaði skólagjöldin á misserinu“ segir Frieda. Hún hefur sótt myndlistarnámskeið í Þýskalandi, á Ítalíu og í Frakklandi. Hún kýs helst að mála landslag að hætti impressionistanna. En það er orðið erfiðara fyrir hana að mála, þar sem hún getur ekki staðið mikið meira en hálftíma í senn við trönurnar. Frieda er ekki eini aldraði málarinn sem Pat Nugent hefur kennt. Hún hefur einnig haft nemanda sem er 97 ára. Hún segir þær góðar fyrirmyndir sem sýni ótrúlega þrautsegju.

Gengur stiga og keyrir bíl

Frieda getur ekki ímyndað sér að lifa lífinu einhvern veginn öðruvísi. „Það er mín skoðun að menn eigi aldrei að gefast upp, setjast niður og hætta að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég er önnum kafin öllum stundum og er alltaf jákvæð, ég er ekkert að agnúast út í aðra“ segir hún. Hún stundar líkamsrækt á hverjum degi og hefur verið að kenna sjálfri sér að elda, þannig að hún geti útbúið kvöldmat fyrir dóttur sína og tengdason. Hún býr á þriðju hæð í húsinu hjá þeim og gengur stigana. Og, hún keyrir ennþá, jafnvel að kvöldi til inní miðborginni. „Ég þarf ekki einu sinni gleraugu. Ég vil ekki verða ósjálfbjarga, það er óþolandi. Menn verða að þora að gera hlutina“, segir hinn aldni myndlistarmaður að lokum.

 

 

 

Ritstjórn maí 5, 2015 10:51