Helstu atriði

  • Eldra fólk mun gera vaxandi kröfur
  • Hætta myndast því á hagsmunaárekstri milli kynslóða

Tengdar greinar

Eldra fólk mun gera vaxandi kröfur

Gríðarleg fjölgun eftirlaunafólks blasir við á Íslandi á næstu áratugum, rétt eins og í öðrum löndum Evrópu. Samkvæmt spám er búist við að árið 2050 verði tveir vinnandi menn að baki hverjum eftirlaunamanni, en í dag eru fimm til sex vinnandi menn á bak við hvern eftirlaunamann. Þessi fjölgun fólks á eftirlaunum á eftir að kalla á miklar breytingar, bæði á vinnumarkaði og í velferðarkerfinu. Meðal þeirra sem hafa látið þetta mál til sín taka eru Samtök atvinnulífsins sem gáfu árið 2007 út skýrsluna Ísland 2050, eldri þjóð ný viðfangsefni.

Það er margt athyglisvert að finna í skýrslunni, um breytingar á aldurssamsetningu mannfólksins bæði í heiminum og hér á landi. Þar segir að því sé spáð að jarðarbúar verði 9 milljarðar um miðja þessa öld. Fólki mun fjölga mest í Asíu og Afríku, en fækka í Evrópulöndunum, þar sem fæðingum í þessum ríkjum fækkar ár frá ári. Sameinuðu þjóðirnar telja að til að viðhalda íbúafjölda í landi, þurfi frjósemi að vera 2.1 barn á hverja konu á barneignaaldri. Frjósemin er minni en það í nánast öllum þróuðum ríkjum um þessar mundir. Þessu er hægt að mæta með meiri innflutningi á erlendu vinnuafli og það er sú leið sem mörg Evrópulönd hafa farið til að halda uppi hagvexti og mannfjölgun. Líklega verður þetta einnig sú leið sem Íslendingar munu fara í framtíðinni en erlendir ríkisborgarar eru nú um 6% af fólkinu á vinnumarkaðinum hér.

Árið 2050 er búist við að Íslendingar verði um 400 þúsund og um 25% þeirra verði eftirlaunafólk, eða um 109 þúsund manns. Gert er ráð fyrir því að þetta ár verði meðalaldur karla orðinn 86.5 ár og kvenna tæp 90 ár. Þessi fjölgun fólks á eftirlaunaaldri mun hafa miklar þjóðfélagsbreytingar í för með sér og í skýrslu SA kemur fram að helstu viðfangsefnin sem menn standa frammi fyrir vegna þessara breytinga séu, að stuðla að því að fæðingartíðni haldist há, að atvinnuþátttaka einkum eldri starfsmanna aukist og að afköst á vinnumarkði aukist og þar verði meiri sveigjanleiki en nú er. Þá þarf að taka vel á móti innflytjendum og stuðla að því að þeir aðlagist samfélaginu og einnig þurfa opinber fjármál, eins og ævinlega að verða sjálfbær til að koma í veg fyrir vítahring skattahækkana og kerfisbundinn hallarekstur.

Þá segir einnig orðrétt í skýrslunni:

[blockquote style=“1″]Eldra fólk verður smám saman sífellt stærri hluti kjósenda og áherslumál sem þeim tengjast fá aukið vægi. Eldra fólk mun gera vaxandi kröfur og ekki sætta sig við það sem nú er almennt í boði. Engar líkur eru á að unnt veðri að mæta öllum kröfum til heilbrigðis- og umönnunarúrræða, sem að mestu byggja á opinberri fjármögnun. Hætta myndast því á hagsmunaárekstri milli kynslóða því ólíklegt verður að teljast að þeir sem eru virkir á vinnumarkaði muni sætta sig við sívaxandi skattbyrði vegna hækkandi meðalaldurs.[/blockquote]

Ritstjórn febrúar 20, 2014 13:59