Húsnæðismál í algjöru rugli

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar J. Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Árið 1999 var mikið skemmdarverk unnið í húsnæðismálum hér á landi. Þá samþykktu skammsýnir stjórnmálamenn, fylgjendur þáverandi ríkisstjórnar, að rústa félagslega húsnæðiskerfinu sem hafði verið í þróun og uppbyggingu frá árinu 1929. Þetta var ekki fullkomið kerfi, en það sinnti þörfum láglauna- og jafnvel meðaltekjufólks og stuðlaði að jafnvægi á húsnæðismarkaðinum. Ekkert var hlustað á ábendingar margra um hvers konar rugl þetta væri. Oftrú á hinn svokallaða frjálsa markað villti þeim sýn sem völdin höfðu. Næsta víst er að þetta skemmdarverk á sinn þátt í því að staðan í húsnæðismálunum nú er eins ömurleg og raun ber vitni.

Óþarfi er að eyða miklu púðri í að lýsa stöðunni í húsnæðismálunum. Þetta er málaflokkur sem er einfaldlega í algjöru rugli. Og það hefur ekkert verið að gerast í þessum málum svo nokkru nemi, að minnsta kosti ekki fyrir hina tekjulægri og jafnvel meðaltekjufólk, sem hefur ekki aðgang að digrum sjónum. Þeir sem til þekkja benda oftast á að það vanti að byggja meira, það vanti fleiri ódýrar íbúðir, að lóðaverð sé of hátt og fjármagnskostnaður einnig. En því miður minnast fáir á upphafið. Þetta var nefnilega allt svo fyrirsjáanlegt.

Það dugar ekki eingöngu að fjölga nýbyggingum. Allt of stór hópur fólks hefur enga möguleika á að komast inn á hinn almenna húsnæðismarkað. Það geta nefnilega ekki allir gert eins og fjármálaráðherrann sagði í viðtali um daginn, að fólk verði bara að safna penningum áður en það ákveður að kaupa sér íbúð. Þessi mál verður að leysa í heild sinni. Samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála verða því að ná til allra hópa. Skynsamlegast væri að endurvekja félagslega húsnæðiskerfið í einhverri mynd og bæta þannig fyrir það skemmdarverk sem unnið var fyrir tæpum tveimur áratugum. Það getur verið heppilegt að komast á þær kunnuglegu slóðir.

Við virðumst annars vera að komast á kunnuglegar slóðir á hinum ýmsu sviðum. Okkur er sagt að það sé bjart framundan, sem þó sé auðvitað eins og alltaf háð því að þeir sem minnst hafa haldi sig á mottunni og séu ekki með heimtufrekju. Nýir bílar seljast víst í kippum og fréttir eru jafnvel byrjaðar að berast af einkaþotum og skemmtisnekkjum og öðru álíka. Í ofanálag er farið að bjóða upp á sjónvarpsþætti um fólk sem kaupir sér íbúð, hendir öllu út og endurnýjar upp á nýtt með glæsibrag, sem einhverjir virðast halda að sé flott. Þetta er eitthvað svo áþreifanlegt dæmi um að það sé ekki allt í lagi. Einmitt þess vegna er átakanlegt að horfa upp á, að á sama tíma og ýmsar breytingar eru að eiga sér stað, einhverjar reyndar ágætar, þá er lítið sem ekkert að gerast á sviðum þar sem raunverulegra úrbóta er þörf. Í sumum slíkum málum er annað hvort svikið með stæl það sem lofað var, sérstaklega fyrir kosningar, eða hugmyndir eru svo fábrotnar og lítilfjörlegar að þær greinast varla.

Húsnæðismál eru meðal þess sem stjórnvöld virðast hafa lítinn metnað til að sinna af krafti. Það er til að mynda ekki minnst einu orði á þennan mikilvæga málaflokk í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem segir auðvitað sína sögu. Þetta er nokkuð sem hefur ekki gerst áður, að minnsta kosti ekki í mjög langan tíma. En, til að gæta allrar sanngirni verður að geta þess, að kannski hefur einhver í ríkisstjórninni fattað hve út úr korti það er að nefna ekki húsnæðismál í stjórnarsáttmála. Ríkisstjórnin hefur, þrátt fyrir allt, samþykkt að koma á fót aðgerðarhópi til að gera tillögur um samræmdar aðgerðir á svið húsnæðismála og til að greiða fyrir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða. Vonandi kemur eitthvað út úr þessari vinnu. Það gæti gerst ef horft verður á málið í heild og hugað að lausnum fyrir alla eins og gert var áður en skemmdarverkið var unnið í lok síðustu aldar.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson febrúar 27, 2017 14:21