Hvaða „sölutrix“ notarðu til að sleppa ræktinni?

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB

Það er ekki alltaf auðvelt að gíra sig upp í að gera eitthvað sem okkur finnst erfitt. Fyrst þurfum við að „selja sjálfum okkur hugmyndina“ og gera hana nógu aðlaðandi til að koma okkur að verki. Það tekst hins vegar ekki alltaf jafnvel og þá þurfum við að nota sams konar aðferðir til að réttlæta aðgerðaleysið svo að samviskan plagi okkur ekki of mikið.

Hérna eru fimm dæmi um sölutrix til að sleppa ræktinni:

  1. Þetta er svo hrikalega dýrt. Ég hef ekki efni á þessu.

Auðvitað er ekki ókeypis að æfa á líkamsræktarstöðunum. Líkamsrækt er hins vegar hægt að stunda nánast hvar sem er. Gönguferðir, sund, hnébeygjur, armbeygjur og planki eru dæmi um æfingar sem skila mjög góðum árangri ef þær eru stundaðar reglulega. Það þarf ekki svo mikinn umbúnað og vesen til að gera góða hluti.

  1. Ég kemst ekki því að ég veit ekki hvernig þetta er allt saman, hvar ég á að leggja bílnum og hvert ég á að fara og hvernig ég á að vera. Ég set mig inn í þetta einhvern tíma seinna.

Þetta kann að hljóma svolítið asnalega en talsverður hópur fólks hugsar svona og það er ósköp eðlilegt. Við höfum lítinn tíma og reynum að koma ræktinni fyrir í stuttum hléum sem við finnum. Þess vegna þurfum við að þekkja aðstæður til að geta metið hvernig þær passa dagskránni okkar. Í stað þess að ætla að mæta í tíma í næsta hádegishléi á einhvern stað sem þú hefur aldrei komið á áður, skaltu fara fyrst í heimsókn þangað og kynna þér málin. Þannig er auðveldara að mæta þegar þú þekkir staðhættina betur.

  1. Ég kemst ekki því að ég er ekki með æfingafötin með mér (eða ég er ekki búin að fá mér æfingaföt).

Þetta er mjög algeng fyrirstaða. Hugsanlega stafar hún af því að innst inni viltu ekki mæta einhverra hluta vegna. Hins vegar virkar mjög vel að byrja á því að gera íþróttatöskuna klára og hafa hana til taks: setja í hana æfingaföt, skó, snyrtidót og handklæði og þá verður þetta ekki eins mikið mál. Sannaðu til.

  1. Ég treysti mér ekki í dag því að ég borðaði svo mikið um helgina að ég get ekki látið sjá mig svona. Ég þarf fyrst að ná þessu af mér.

Jú, það er satt. Það hugsa talsvert margir á þessum nótum. Hins vegar gerast engin skelfingar ósköp í holdafarinu þótt beislinu sé slepp eina helgi eða svo. Við höfum bara ennþá meiri orku til að spila úr og líðanin batnar til muna við að taka á því. Ef óttinn við spegilinn er mikill þá er bara um að gera að fara í þægilegustu æfingafötin, brosa breitt og reyna svo ærlega á sig.

  1. Ég er í svo lélegu formi að ég get ekki látið sjá mig. Best ég æfi mig fyrst heima og fari í göngutúra þannig að ég verði ekki eins og asni innan um alla hina.

 Það er ótrúlega algengt að fólk sjái líkamsræktarstöðvar fyrir sér sem einhvers konar partístaði sem eru eingöngu sóttir af fallega og fína fólkinu. Auðvitað æfir það fólk líka á þessum stöðvum en þar fyrir utan er líka allt hitt fólkið sem er í alla vega formi. Þeir sem sækja líkamsræktarstöðvarnar eru í langflestum tilfellum komnir þangað til að komast í betra form og þú átt svo sannarlega fullt erindi þangað ef þér finnst þú ekki vera upp á þitt besta. Prófaðu að fara fyrst í heimsókn, fá leiðsögn og skoða þig um, þá fær staðurinn á sig meiri raunveruleikablæ og tilhugsunin um að mæta verður ekki eins erfið.

Gangi þér vel!

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 4, 2015 15:30