„Hvatvísir froðusnakkar hófust til valda“

Aldurshópurinn 55 ára og eldri er ekki fyrirferðarmikill í stjórn þriggja bæjarfélaga sem Lifðu núna kynnti sér nýlega. Landssamband eldri borgara telur að stofnun öldungaráða í sveitarfélögum geti tryggt þessum aldurshópi meiri áhrif á sín mál. Öldungaráð hafa veriðs stofnuð á Norðurlöndunum og þykja hafa gefist vel.   Öldungaráð voru við lýði í Rómarveldi fyrir rúmlega 2000 árum og Cícero segir í bók sinni um ellina sem kom út 44 árum f. Kr. að jafnvel þótt þeir sem eldri eru, hlaupi ekki lengur né stökkvi eða vegi menn með sverði, njóti þeir vitsmuna sinna og dómgreindar. Um það vitni öldungaráðin og Cícero segir:

Og ef þið kynnið ykkur sögu erlendra þjóða, komizt þið að raun um að það eru fyrst og fremst ungir menn og óreyndir sem hafa kollvarpað voldugum borgum, en öldugnar hafa afstýrt voðanum og reist þær við á ný. Í leikritinu Leikurinn, eftir skáldið Nævíus er spurt: „Seg mér hver osök þess var að voldug borg yðar leið svo skjótt undir lok.“ Sá sem spurður er greinir ýmsar ástæður, en þá helzta að „hvatvísir froðusnakkar, ungir og fávísir, hóufst til valda“.

Finnst við hafa haft áhrif

Hafnarfjörður var fyrst bæjarfélaga hér á landi til að stofna öldungaráð.  Þar eiga Félag eldri borgara, kirkjan, stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn og nokkur félagasamtök fulltrúa. „Mér finnst við hafa haft áhrif“, segir Gylfi Ingvarsson formaður öldungaráðsins þar.  Ráðið er umsagnaraðili og ráðgefandi um flest það sem lýtur að þjónustu við eldri borgara í Hafnarfirði og á fulltrúa í verkefnastjórn fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila  í bænum. Einnig á ráðið náið samstarf við Félag eldri borgara í bænum  um sameiginleg mál.  Þá hefur ráðið átt samstarf við bæinn og Félag sjúkraþjálfara um verkefnið „Brúkum bekki“. Fyrsta áfanga verkefnisins er lokið með merktum gönguleiðum.  Af því tilefni var gefið  út kort með gönguleiðum í bænum, en þar eru um 250-300 metrar á milli bekkja sem eru merktir inná kortið. Öldungaráðið heldur ársfund og tekur þá fyrir ákveðið þema, eins og þjónustu við eldri borgara, hreyfingu og líkamsrækt eldri borgara.

Öldungaráð í bígerð á Akureyri

Stofnun öldungaráða er fyrirhuguð í fleiri sveitarfélögum, þar á meðal á Akureyri. „Það þarf að koma samskiptum eldri borgara og bæjaryfirvalda í formlegri farveg en verið hefur“, segir Sigurður Hermannsson formaður Félags eldri borgara þar, en samþykkt var skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor að setja á laggirnar öldungaráð í bænum. Ákveðið var að bíða með að hrinda málinu í framkvæmd þar til eftir kosningar. Sigurður segir að það eigi eftir að útfæra það nánar hvernig öldungaráðið verði skipað og hvernig það starfi. Hann telur mikilvægt að kveða á um vægi ráðsins, hvernig samráð skuli vera milli þess og bæjaryfirvalda og hvað gert verði með það.  Búist er við að af stofun ráðsins geti orðið í haust.

 

Ritstjórn júlí 9, 2014 15:06