Hvers vegna heldur fólk framhjá?

Mannfræðingurinn Dr.Helen Fischer segir það innbyggt í mannfólkið að ná sér í maka og endurtaka það ferli með reglulegu millibili.Hún kallar það „fjögurra ára kláðann.“ Til forna, segir hún, var litið svo á að næði barn fjögurra ára aldri myndi það lifa af og spjara sig.Líffræðilegum foreldrum barnsins væri þá frjálst að leita á önnur mið og barnið ælist upp í stórfjölskyldu eða ættbálknum.

Þessi háttsemi nær sennilega milljón ár aftur í tímann þegar forfeður og formæður nútímamanna stóðu jafnfætis á mörgum sviðum, félagslega og kynferðislega. Sum söfnuðu og önnur veiddu en eitt gerðu þau öll reglulega, þau stunduðu kynlíf og þau urðu að stunda kynlíf. Hvernig átti mannkynið annars að komast af? Eina leiðin til þess var að stunda mjög mikið kynlíf með mörgum félögum.Og vissulega virkaði það, við erum öll hérna í dag. Fjallað er um þetta mál á vefnum aarp.org.

Á meðan á öllu þessu brölti stóð, segir Dr.Fischer, jókst hormónaflæði með hverjum samförum til að auka unað og ástríðu sem svo kallaði aftur á aðrar samfarir. Þannig bendir margt til þess að mannslíkaminn sé þróaður til að veiða, safna, stunda kynlíf og geta af sér afkvæmi. En hvers vegna er ég að telja þetta allt upp, spyr hún. Jú, til þess að fá einhvern botn í það hvers vegna fólk heldur framhjá. Hvers vegna konur og karlar hætta svo miklu, eins og fjölskyldu og vinnu, fyrir stundargaman. Dr.Fischer telur að fólk haldi framhjá vegna þess að það sé þannig líffræðilega byggt að það geti ekki hamið löngun sína. Á máli mannfræðinga heitir þetta að karlarnir verði að dreifa sæði og konurnar að ala börn.

En Dr.Fischer trúir líka á frjálsan vilja.Þó við séum þannig frá náttúrunnar hendi þýðir það ekki að við verðum að halda framhjá og það er mergurinn málsins.Er ekki betra að beina allri orku okkar, ást að einum og sama félaganum, þeim eða þeirri sem við höfum kosið að byggja heimili með og eiga með fjölskyldu, spyr hún.

Esther Perel, rithöfundur  útskýrir hvernig það allt kemur heim og saman.Hún segir að það sé algengt að fólk haldi framhjá eftir að hafa misst eitthvað eða einhvern síðast lið eitt eða tvö ár. Kannski var það dauðsfall, atvinnumissir eða að einhver fór að heiman. Esther hefur komist að því að konur sem hafa upplifað missi finnst oft að þær hafi glatað hluta sjálfs sín en með framhjáhaldi finnist þeim að þær nái að endurheimta þann hluta. Fyrir bæði kyn má setja þetta undir einn hatt og kalla „miðaldurskrísu.“ Perel segir að merkilegt nokk sé ástæða framhjáhalds ekki það að fólk hafi misst ást á maka sínum.Við burðumst með líffræðilegar ástæður þess að vilja halda framhjá og ekkert okkar er ónæmt.Ef þú ert í sambandi sem skiptir þig miklu máli er þér hollast að berjast gegn þessum hneigðum af öllu hjarta.

Við erum komin yfir fimmtugt. Kannski erum við orðin leið á makanum eða þeir þættir í fari hans sem við hrifumst svo af fyrir áratugum eru farnir að fara verulega í okkar fínustu. Eða kynlífið er lítið sem ekkert vegna þreytu, of mikillar vinnu eða anna. Það eru ótal ástæður þess að kynlífið hefur verið lagt á hilluna og hvers vegna við látum undan þeirri löngun að eiga ævintýri með einhverjum nýjum eða nýrri.

Og Perel spyr, hvers vegna ekki að gera nýjan félaga úr þeim sem þú þegar hefur. Til dæmis með því að skapa ný áhugamál, ferðast saman og svo mætti halda áfram að telja.

 

Ritstjórn júlí 8, 2016 10:42