Ingi Björn Albertsson fyrrverandi þingmaður með meiru

Ingi Björn segir að hann hafi tekið ákvörðun um að halda sig fjarri sviðsljósinu eftir að hann hætti á þingi. Hann er stoltur af þeim tíma en segist hafa farið á þing upphaflega til að hjálpa föður sínum, Alberti Guðmundssyni, sem var þingmaður og ráðherra og stofnaði Borgaraflokkinn 1987. Þá hófust afskipti Inga Björns af stjórnmálum sem lauk 1995.

Árið 1995 urðu þáttaskil hjá Inga Birni. Þá gerðist hann fasteignasali og hefur auk þess fengist við veitingahúsarekstur með öðru í 25 ár. Hann og eiginkona hans Magdalena ráku um tíma þrjá veitingastaði í Lækjargötu og urðu sér úti um reynslu sem nýttist þeim þegar aðstæður breyttust aftur 2012 og þau fluttu til Kaupmannahafnar. Þar keyptu þau veitingahúsið Kaffi Salonen og ráku það þar til fyrir tveimur árum.

Þau Ingi Björn og Magdalena ráku Kaffi Salonen þar til sonur þeirra, sem er eitt af sex börnum þeirra, tók við rekstrinum. Ingi Björn segir að syninum gangi mjög vel með staðinn og nú sé veitingahúsið orðið að “Íslendingabar” því þangað sæki Íslendingar, búsettir í Kaupmannahöfn, mikið.  Íslendingar á ferðalagi séu líka óðum að átta sig á hvar Kaffi Salonen er til húsa. Veitingarnar sem þar eru framreiddar eru það sem Danir kalla kalt eldhús. Í boði eru salöt, samlokur og “smörrebröd”. Svo er þetta bar og skemmtistaður eftir að eldhúsið lokar á kvöldin. Veitingahúsið er í miðborg Kaupmannahafnar, skammt frá Strikinu. Kaffi Salonen hefur verið í rekstri í 35 ár en eins og nafnið gefur til kynna vísar það í hárgreiðslustofu. Ingi Björn segir að það hafi verið gamall hippi sem opnaði staðinn upphaflega en hann var með rakarastofu á efri hæðinni. Hippinn opnaði kjallarann fyrst sem biðstofu fyrir þá sem voru að koma til hans í klippingu og biðstofan breyttist smám saman að veitingastað. Gamli maðurinn býr enn á efri hæðinni en segir sjálfur að allir kúnnarnir hans séu annaðhvort dauðir eða orðnir sköllóttir svo viðskiptin hafi eðlilega minnkað síðustu árin. Þess vegna seldi hann veitingastaðinn og hafa nokkrir eigendur verið að Salonen á undan Inga Birni. Gamli rakarinn  klippir nú einungis útvalda að sögn Inga Björns.

Veitingastaðurinn Kaffi Salonen er við Sankt Petersstræde og hefur húsnúmerið 20. Húsið þar sem Jónas Hallgrímsson féll niður stiga í er áfast og er númer 22. Jónas lést af afleiðingum þess falls sem kunnugt er og hefur húsið því sína sögu.

Þegar Ingi Björn kom til landsins í stutta heimsókn sl. haust datt hann inn í að keyra leigubíl frekar en að gera ekki neitt á meðan hann dvaldi hér. Dvölin lengdist og hann er enn að aka leigubílnum. Það segir hann að sé sérlega lærdómsrík iðja og að þingmenn hefðu gott af að prófa þetta starf. Í leigubílum hitti maður þverskurð af þjóðinni sem sé lærdómsríkara en mann gruni að óreyndu.

Fjórir fræknir fótboltamenn: Ingi Björn, Albert, Albert og Guðmundur.

Fótbolti hefur verið ríkur þáttur í lífi Inga Björns. Hann er fæddur í Frakklandi þar sem faðir hans Albert Guðmundsson var atvinnumaður í íþróttinni á þeim tíma, fyrstur Íslendinga. Nú er alnafni hans, barnabarn Inga Björns, Albert Guðmundsson, orðinn atvinnumaður í fótbolta eins og langafi. Sá yngri hefur spilað í Hollandi og var nú nýverið seldur til stjörnuliðsins AZ Alkmaar svo hann gefur forfeðrunum ekkert eftir í sportinu. Albert er dóttursonur Inga Björns en faðir hans er Guðmundur Benediktsson sem flestir Íslendingar vita hver er. En allir fjórir hafa þessir fótboltamenn skorað mark með íslenska landsliðinu svo fótboltagenin liggja augljóslega í ættinni.

 

 

Ritstjórn ágúst 29, 2018 11:23