Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi ráðherra og þingmaður

„Ég á stóra fjölskyldu, hún er alltumlykjandi. Ég nýt þess að vera með fólkinu mínu og hafa það í kringum mig,“ segir Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi ráðherra, þingmaður og bæjarfulltrúi á Akranesi. Ingibjörg á fjóra syni, jafnmargar tengdadætur, 14 barnabörn og eitt langömmubarn. „Elsta barnabarnið mitt er 21 árs og það yngsta er átta mánaða. Þau búa öll í næsta nágrenni við mig og eru mikið hjá okkur. Núna er eitt barnabarnið í heimsókn hjá mér. Það er að undirbúa sig fyrir inntökupróf í læknisfræði. Það er alltaf einhver hjá mér fyrir utan manninn minn hann Harald Sturlaugsson,“ segir Ingibjörg og hlær dátt.

Það eru ákveðin kaflaskil í lífi Ingibjargar þessa dagana en hún er að hætta sem bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akranesi. „Ég ætlaði ekkert að fara inn í bæjarmálin aftur en það gekk ekki nógu vel að koma saman framboðslista fyrir kosningarnar fyrir fjórum árum svo ég ákvað að slá til,“ segir hún. Ingibjörg var ekki ókunnug bæjarpólitíkinni en hún sat í bæjarstjórn á árunum 1982 til 1994. Hún segir að sig hafi ekki langað að halda áfram í bæjarpólitíkinni eftir það kjörtímabil sem nú er á enda. „Það er svo ánægjulegt að það er komið margt frambærilegt ungt fólk sem er tilbúið að taka við keflinu. Þessi kafli í mínu lífi er orðinn nógu langur,“ segir hún. Ingibjörg segir að henni hafi fundist allt annað að sitja í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili heldur en þegar hún sat í bæjarstjórn á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. „Þegar ég var kjörin í bæjarstjórn upp úr 1980 var engin hefð fyrir því að konur sætu í bæjarstjórninni. Körlunum datt ekki í hug að þetta væri starf fyrir ungar stúlkur,“ segir hún og bætir við „mér finnst fólk miklu tilbúnara að vinna saman en það var þegar ég kom fyrst inn í bæjarmálapólitíkina. Það er mjög gefandi að finna hversu ungt fólk, hvar í flokki sem það stendur, er samviskusamt og tilbúið að leggja hart að sér. Það er eins og flokkspólitíkin hafi dofnað og fólk tekur þessu sem vinnu. Í dag er fólk miklu opnara og reiðubúið að ræða málin. Karlarnir héldu spilunum fast að sér í gamla daga og voru ekki mikið fyrir að segja hvað þeir væru að hugsa. Pólitíkin í dag er þúsund sinnum skemmtilegri en þá. Það ríkir meira traust á milli manna.“

Ingibjörg sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn í tíu ár eða frá 1991 til ársins 2001. Hún gegndi embætti heilbrigðisráðherra í sex ár, lengur en nokkur annar fyrr og síðar. Þegar hún lét af embætti heilbrigðisráðherra hafði engin ráðherra í Evrópu gengt því embætti jafn lengi og hún, enda málaflokkurinn talinn erfiður.  „Ég hafði gífurlegan áhuga á þessu verkefni. Mér bauðst annað ráðherraembætti þegar ég var búin að vera heilbrigðisráðherra í fjögur ár en ég hafði engan áhuga á að skipta og vildi bara halda áfram í mínu ráðuneyti,“ segir hún. Þegar Ingibjörg lét af embætti ráðherra og hvarf af þingi tók hún við nýrri stöðu, hún varð umboðsmaður sjúklinga á Landspítalanum og mótaði það starf frá grunni. Henni bauðst svo að fara að vinna hjá Velferðarsjóði barna, en það var sjóður sem Íslensk erfðagreining kom á laggirnar árið 2000. Í dag situr Ingibjörg í stjórn sjóðsins. Þá má nefna að hún var í nokkur ár formaður Hjálparstarfs kirkjunnar.

„Ég hef alltaf haft nóg að gera. Verkefnin hafa komið til mín á færibandi. Ég á alltaf mjög erfitt með að segja nei þegar ég er beðin um að taka eitthvað að mér. Ég hef því tekið að mér ólíklegustu verkefni í gegnum tíðina. Ætli megi ekki segja að ég sé hálfgerður auli þegar kemur að því að segja nei,“ segir hún og kímir.

Ingibjörg segir að það sé ýmislegt fram undan hjá henni sem hún sé þó ekki tilbúin að greina frá á þessari stundu. „Jú, ég þarf að laga til í garðinum. Ég er með stóran garð og það er mikil vinna að hreinsa til eftir veturinn. Það hefur bara ekki viðrað til þess í vor. Svo er ég er að fara með gönguhópi til Jersey í júní þar sem við ætlum að ganga um eyjuna en áður en ég fer ætla ég að vera búin að koma garðinum í stand.“

Ritstjórn maí 30, 2018 11:16