Jólagjafir fyrir þá sem eiga allt

Það er oft erfitt að finna jólagjafir handa fólki sem á allt. Þegar fólk er komið yfir miðjan aldur vantar það líklega ekki margt. Þá getur verið góð hugmynd að gefa fólki upplifun af einhverju tagi. Eða að gefa gjöf sem gefur, þ.e. ávísun á peninga til verkefna sem bæta samfélagið eða heiminn.

Gjafabréf

Það er gríðarlegt úrval gjafabréfa á markaðnum, til dæmis í leikhús eða á tónleika. Eða gjafabréf sem er ávísun á nudd, fót- eða handsnyrtingu. Það er hægt að fá gjafakort í mörgum verslunum og einnig hjá flugfélögunum. Ferðafélag Íslands er líka með gjafakort og það er líka hægt að fá gjafakort í bönkum, sem er þá kort með ákveðinni inneign. Það má líka hugsa sér að kaupa gjafabréf sem er ávísun á máltíð fyrir tvo á veitingastað. Hérna eru tekin af handahófi nokkur dæmi um gjafakort sem gæti verið sniðugt að gefa.

  • Gjafakort í Borgarleikhúsið kostar 11.000 krónur fyrir tvo. Það er hægt að kaupa það á netinu. Verð á gjafabréfum í Þjóðleikhúsinu sem einnig má kaupa á netinu er 8.900 krónur fyrir tvo.
  • Gjafabréf fyrir tvo á sýninguna Mr. Skallagrímsson í Landnámssetri, kostar 7000 krónur.
  • Það má líka gefa bíómiða, pepsí og kók í Sambíóunum.Það kostar 3.300 krónur fyrir tvo.
  • Heilsunudd fyrir einn hjá Sóley Natura Spa í gamla Loftleiða hótelinu kostar 11.900 krónur.
  • Klassískt andlitsbað kostar 10.900 krónur á Nordica hótelinu.
  • Það er hægt að fá gjafabréf uppá lúxus fótsnyrtingu á 9.900 krónur hjá Carita í Hafnarfirði.
  • Handsnyrting með lökkun kostar svo 7.500 krónur á Reykjavík Spa, sem er í Grand Hótelinu í Sigtúni.
  • Gjafabréf Icelandair fyrir upphæð að eigin vali, er kjörin jólagjöf fyrir þann sem á börn og barnabörn erlendis. Bréfin gilda sem peningagreiðslur upp í öll flug.
  • Gjafabréf sem er ávísun á hádegisverðartilboð fyrir tvo á Smurstöðinni í Hörpu kostar 5.700 krónur.

Gjöf sem gefur

Hjá Hjálparstarfi kirkjunnar er hægt að kaupa gjafabréf sem eru ávísun á aðstoð við efnalítið fólk, eða flóttamenn, eða fátækt fólk útí heimi. Það er meira að segja hægt að gefa fólki geit.  Hér eru nokkur verðdæmi um gjafir sem gefa.

  • Gjafabréf uppá 3500 krónur til að gleðja börn fátækra foreldra hér á landi um jólin.
  • Það er líka hægt að kaupa gjafabréf fyrir 6000 krónur, sem er ávísun á sumarnámskeið, sömuleiðis fyrir börn efnalítilla foreldra hér á landi.
  • Gjafabréf sem kostar 6000 krónur tryggir hreint vatn fyrir 20 manns, en þetta er hlutdeild í brunni í þorpi í Eþíópíu.
  • Gjafabréf fyrir geit kostar 3.200 krónur.  Það er ekki há upphæð í íslenskum krónum, en getur hjálpað fjölskyldum í Uganda mikið.  Meðal þeirra sem fá geitur í gegnum þetta verkefni eru heimili munaðarlausra barna.
Ritstjórn desember 17, 2015 10:04